Ég er í rusli. Maðurinn með nítjándualdarandlitið, Chiellini, búinn að skora fyrir Ítali. Og Ítalir búnir að vera sterkari „aðilinn“. Þetta er eitthvað rangt. Þetta er búningum Spánverjanna að kenna, þessum fáránlega ljótu aukabúningum sem þeir nota. Þeir voru líka í þessum skelfilegu búningum þegar þeir töpuðu gegn Króötum. Af hverju eru þeir ekki í sínum dökku búningum; það fer Spánverjum ekki að vera í svona auglýsingastofulegum hönnunargalla. Eða -gaddla. Ég er kominn með hjartsláttartruflanir. Og nú kemur hléð. Ég fer í frystihólfið í ísskápnum mínum og næ í bjórinn sem hefur beðið eftir mér þar í nokkra daga, ef ekki viku. (Eða var ég búinn að drekka hann? Ég man það ekki. Geðshræringin er slík.) Og þegar ég toga í álhringinn til að opna dósina, springur dósin, og allir 500 millilítrarnir sprautast yfir eldhúsið og mig! Og utan á ísskápshurðina; það fer mest á hana. Ég þarf að skipta um föt; ég ætla ekki að fara angandi af humlum í seinni leik dagsins á heimili bróður míns. Og ég ætla að þrífa eldhúsið; ég ætla að nota næsta klukkutímann til þess – ég þori ekki heilsunnar vegna að horfa á restina af Spánarleiknum. Og ég ætla að endurbirta ítölsku myndina af fráfarandi forseta okkar.