Almennt reyni ég að forðast að hafa tilvitnanir í aðra höfunda í bókunum mínum. Oftast fer betur á því að fella orðin inn í eigin texta – hafi maður einhverja sérstaka þörf fyrir að miðla þeim – og þar með stela þeim. Enda þykir mun flottara (samkvæmt virðulegum höfundum, þar á meðal nóbelshöfundinum íslenska) að stela orðum eða hugmyndum, frekar en að fá þær að láni. Ég fór að hugsa um þetta út frá bók sem ég fékk í hendurnar í gær, Future Days, eftir Englendinginn David Stubbs. Hún fjallar um Krautrokkið þýska, eða Kosmische Musik (eins og „aðilar“ Krautrokksins vildu frekar kalla það), og í tengslum við tónlistina um uppbyggingu Þýskalands í nútímanum. En nú að öðru, þessu tengt. Í smásagnasafninu mínu Við hinir einkennisklæddu frá 2003 notaði ég tilvitnun í Klaus Hütter úr hljómsveitinni Kraftwerk. (Eitthvað skrítið samt að kalla Kraftwerk „hljómsveit“.) En þegar ég tók saman úrvalið sem kom út á þessu ári, Dulnefnin, þá sleppti ég þessum orðum Klaus; og er eitthvað að velta því fyrir mér núna hvort ég hefði ekki átt að leyfa þeim að vera með. En hvort sem er, þá langar mig til að rifja þau upp hér (þau koma úr bók sem ég las einu sinni um Kraftwerk): „Mínar fyrstu tónlistarlegu minningar … þögn … ekkert.“ Hvílík setning! Engin furða að mér fyndist ég þurfa að vitna í þetta þegar ég gaf út bókina um hina einkennisklæddu. En að ég sé að rifja þetta upp núna – kannski þurfti ekki bókina Future Days til. Ég held nefnilega að tónlistarlegar æskuminningar Klaus Hütters endurómi á einhvern hátt í bókinni sem ég er sjálfur að skrifa þessa stundina. Og það er einmitt hennar vegna sem ég keypti mér bókina eftir David Stubbs. Þannig að þetta er allt komið í hring – það er eitthvað kosmískt í þessu … En hvað er betur við hæfi en að rifja upp smá Kraftwerk núna? Hér er Computervelt í allri sinni dýrð (og gott betur en það, því þarna er viðauki fyrir aftan):