Ef einhver tónlist á heima á vínilplötu, þá er það tónlist Antons Webern. Í mínum augum – eða eyrum – hefur helsti gallinn við geisladiskinn alltaf verið sá að of miklu efni er hlaðið á hann. Í staðinn fyrir að búa til 12 laga plötu býr rokkhljómsveitin til 17 eða 19 laga plötu, og hrúgar öllum aukalögunum aftast á diskinn, bara til að eyðileggja heildaráhrifin. Einn af kostum vínilplötunnar er hins vegar sá að hver hlið hefur yfirleitt ekki meira en tuttugu mínútur af músík. Ég var að eignast gamla Supraphon-plötu, frá 1967, með svítu eftir Schoenberg, fyrir heila fjölskyldu af klarinettum, þrjú strengjahljóðfæri og píanó, op. 29, og tveimur verkum eftir Webern: tríói fyrir fiðlu, lágfiðlu og selló, op. 20, og kvartett fyrir fiðlu, klarinett, tenór saxófón og píanó, op. 22 – eins gott að nefna allar þessar tæknilegu upplýsingar, fari svo að einhvern langi til að hlaupa út í búð og kaupa þessa músík (eða kveikja á henni á youtube) – og það er eins og það er: að hlusta á þessi verk af vínilnum, að þurfa að snúa plötunni við, og dusta af henni ryk (sem hafði áhrif, því nálin hökti svolítið í fyrra Webern-verkinu), er tvöföld ánægja á við þá ánægju sem fæst af því að hlusta á þetta á geisladiski. Double happiness, eins og Japanir orða það. Kannski eru vínilplötur frá Supraphon eitthvað sérlega góðar, en hljómurinn af þessari gömlu plötu er snarpur, stökkur og svalur – mér finnst ég þurfa að grípa til enskrar tungu til að lýsa honum: crunchy, crisp og cool, eitthvað svoleiðis; þetta átti samt ekki að vera þýðing á íslensku orðunum – svona hljómur er held ég óhugsandi á geisladiski. Hljómsveitin sem spilar verkin heitir Musica Viva Pragensis. Ég veit ekkert um hana, nema að hún er tékknesk (eða tékkóslóvakísk). En hér er kvartett Weberns op. 22, undir stjórn Pierre Boulez – sexy stuff, eins og einn álitsgjafinn á youtube orðar það svo svalt: