Frásögn af spítalavist í ParísarborgFrásögn af spítalavist í Parísarborg

Birtist fyrst í Læknablaðinu í febrúar 2007.

SPENNITREYJAN

Í leikriti Harolds Pinter, Ashes to ashes, veldur það persónu sem kallast Rebecca miklum vonbrigðum að lögreglusírena sem hún hefur rétt í þessu heyrt nálgast og fjarlægjast húsið sem hún dvelur í skuli ekki lengur hljóma í eyrum hennar heldur í eyrum einhverrar annarrar manneskju. Hún á mjög erfitt með að sætta sig við að hljóðið í sírenunni – sem henni finnst afar fallegt – skuli ekki lengur vera „hennar“, eins og hún orðar það; að einhver annar en hún fái að njóta þess. Hin persónan í leikritinu, sem er elskhugi og/eða kvalari Rebeccu, maður að nafni Devlin, reynir að hughreysta hana með þeim orðum að fljótlega muni hún heyra í öðrum bíl með sírenu, og honum tekst á endanum að sannfæra hana um að á hverri mínútu sé lögreglubíll ræstur hér eða þar, og bruni af stað með logandi sírenu; hún muni aldrei framar þurfa að kvíða því að heyra ekki í lögreglunni nokkuð reglulega. Svo fara þau að tala um eitthvað annað, þau Devlin og Rebecca – þótt „eitthvað annað“ hljómi ef til vill sakleysislega í ljósi fremur óhefðbundinna samskipta þeirra.

Ófáar persónur í skáldbókmenntunum hafa öðlast framhaldslíf í huga mínum. Sumar þeirra eru nánast jafn lifandi og fólk sem maður umgengst daglega, en þótt hin órólega Rebecca Pinters sé í huga mínum ekki ein þeirra dúkkar hún upp í hvert sinn sem ég heyri sírenu hljóma á götum borgarinnar – og það hljóð virðist sífellt verða tíðara, hvernig sem á því stendur. Og þá bregst ekki að það sem ég hef verið að hugsa þá stundina víkur fyrir öðrum og stærri hugsunum: vangaveltum um öryggið og skortinn á örygginu í lífinu, þá hughreystandi staðreynd að sem þjóðfélagsþegn hefur maður aðgang að heilbrigðisþjónustu, en heilabrotin snúast þó ekki síður um fagurfræðina í þrá Rebeccu eftir að heyra hinn ákafa og ómstríða söng sírenunnar; um fallega mótsögnina í ljóðrænni yfirlýsingu hennar. Niðurstaða þessara hugsana minna verður hins vegar alltaf sú sama; að í raun þrái ég sjálfur að heyra sírenuna nálgast mig, að líkt og Rebecca kunni ég illa við að heyra hana fjarlægjast, þótt ég sé ólíkur Rebeccu að því leyti að ég tek sjúkrabílinn fram yfir lögreglubílinn.

En hvernig útskýrir maður þá löngun að vera pikkaður upp úti á götu af opinberri neyðarþjónustu á borð við lögreglu eða sjúkraflutningsfólk? Allajafna vill maður helst ekki vera lagður inn á spítala (hvað þá stungið í fangaklefa), en samt er einhver óútskýranleg vellíðan sem fylgir því að vera fullkomlega ósjálfbjarga, algerlega upp á aðra kominn, og meðhöndlaður í því ástandi af sprenglærðu, allsgáðu fólki sem ekki aðeins fær borgað fyrir að bjarga manni, heldur hefur á líkama manns þann brennandi áhuga að hugsanlega geti hann sýnt því eitthvað sem það hefur ekki séð áður. Að óska sér þessarar meðferðar án þess að nokkuð ami að manni er auðvitað ósanngjarnt gagnvart öðru fólki sem virkilega þarf á sjúkrahjálp að halda, en í augnablikinu dettur mér í hug að þetta sé skylt annarri tilfinningu, nefnilega þeirri sammannlegu þrá eftir ánauð og ófrelsi sem felst meðal annars í því að vera bundinn niður og keflaður og geta sig hvergi hreyft, á meðan viðstaddir geta gert við mann það sem þeir þurfa eða langar til að gera við mann. Og þá rifjast upp fyrir mér lítil saga:

Fyrir rúmum þremur árum var ég staddur ásamt konunni minni í París. Við bjuggum miðsvæðis í borginni, í fjórða hverfi við Signu. Þetta var í sumarlok, við höfðum upplifað einhverja mestu hitabylgju sem geisað hefur í Evrópu á síðustu árum – og lifað hana af – og þá, einn morguninn, fékk ég allt í einu verki í líkamann; verki sem höfðu ekkert með nýafstaðna hitabylgju að gera en urðu fljótlega svo miklir að konan mín sá ekki annað ráð en að hringja í lækni. Sá var lygilega fljótur á staðinn og þegar hann hafði skoðað mig tók hann sjálfur upp símann og bað um að ég yrði sóttur. Mér var síðan ekið babú í sjúkrabíl á næsta spítala, og þurfti engar áhyggjur að hafa af því að sírenan sem vældi í eyrum mínum myndi fjarlægjast; hún fylgdi mér alla leið af hægri bakka Signu yfir á Borgareyjuna, Ile de la Cité, þar sem mér var rennt inn á elsta spítala Parísarborgar, hið sögufræga sjúkrahús Hôtel-Dieu, við sama torg og hin frúarlega kirkja Notre Dame.

Eftir komuna á Hôtel-Dieu varð fljótlega ljóst að það þurfti að skera mig upp. (Ég læt vera að nefna ástæðuna, enda grunar mig að hún hljómi ósköp hversdagslega, ekki síst í eyrum lækna.) Og úr því það átti að opna á mér líkamann þurfti líka að svæfa mig – nokkuð sem í ljósi þeirra verkja sem ég hafði í líkamanum hljómaði mjög vel. Mér var rúllað inn í sérstakt herbergi þar sem ég var lagður á bekk, og þá birtist hávaxinn maður sem laut vingjarnlegur yfir mig; hann bauð mér góðan daginn og sagði á frönsku: „Ég er svæfingalæknirinn þinn.“

Svo man ég ekki meira fyrr en ég vaknaði aftur, einhverjum klukkustundum síðar, í hvítu herbergi með miðaldra konu sem ég hóf að spjalla við á mun meiri frönsku en ég hef nokkurn tíma haft vald á. Þaðan var svo ekið með mig inn á gjörgæsludeildina, og til að gera langa sögu stutta dvaldi ég þar í tvo daga, talsvert kvalinn eftir uppskurðinn en í nokkuð stöðugu morfínmóki sem ég kunni ágætlega við. Ég veit ekki hvers vegna ég var látinn hvílast inni á gjörgæsludeild (sem varla var rólegasta deildin á spítalanum), en þar eð ég taldi mig nokkuð lukkulegan að fá yfirhöfuð að dvelja í þessu fræga húsi ákvað ég að gera engar athugasemdir.

Þó gat ég ekki að því gert – þrátt fyrir ljúfa morfínvímuna – að finnast þjónustan við mig ekki sérlega góð. Enda hafði starfsfólkið í nógu að snúast, ekki síst við að sinna herbergisfélaga mínum, Alsírbúa um fimmtugt, sem líkt og ég virtist vera þeirrar tegundar að þykja gott að liggja á spítala. Hann var augljóslega kominn á Hôtel-Dieu með það fyrir augum að nýta sér til fullnustu þá þjónustu sem boðið var upp á, og þegar kom að því að læknirinn tilkynnti honum að hann mætti fara heim þyngdist allt í einu brúnin á sjúklingnum, og af því litla sem ég skildi af orðum hans var hann hreint ekki sammála lækninum. En þegar læknirinn ítrekaði að ekki aðeins mætti hann fara heim, heldur þyrfti hann að fara heim, brást hinn alsírski við með svo miklum látum að ekki færri en tíu eða tólf manneskjur af báðum kynjum þurfti til þess að halda honum föstum á meðan hann var settur í spennitreyjuna.

Þótt ég hafi sofnað fljótlega eftir að þetta gerðist, og ekki vaknað aftur fyrr en búið var að tæma og búa um rúmið við hliðina, man ég að áður en ég lognaðist út af sneri herbergisfélagi minn höfðinu sem snöggvast til mín, pikkfastur í spennitreyjunni, og brosti veiklulega, úrvinda af þreytu en alsæll.

Bragi Ólafsson

Leave a Reply