Ljóðið Glæstar smíðar birtist í Klinki, ljóðabók Braga frá árinu 1995. Glöggur lesandi þessarar síðu benti á að ljóðið, sem er upphafsljóð bókarinnar – þessarar bókar sem eins og nafnið gefur til kynna, fjallar að miklu leyti um gjaldmiðla og viðskipti hvers konar – fjallaði í raun um það hrun sem varð á Íslandi 2008.
GLÆSTAR SMÍÐAR
Yfir sumarmánuðina
þegar skemmtiferðaskipin eru að sökkva
úti á ytri höfninni
hvert á fætur öðru undir krefjandi aðdáun borgarbúa
verður spurningin um meira eftirlit með skipaferðum
áleitnari
og ekki aðeins áleitnari heldur einnig varpað fram
eins og spurningunni um það
hvers vegna þessar glæstu smíðar
þessi fljótandi samkvæmi sigurs og vonar
sökkvi alltaf að næturlagi
alltaf á þeim tíma sem aðdáun okkar er mest.