Ég hitti E. á stígnum við sjóinn. Við höfðum ekki hist í svolítinn tíma. Ég hélt hann væri farinn að vinna á nýjum veitingastað – E. er kokkur (meðal annars) – en hann sagðist hafa farið aftur á staðinn þar sem hann vann áður, eftir að hafa prófað nýja staðinn í einn eða tvo daga. Það var mjög kalt í veðri, þar sem við stóðum á stígnum, ábyggilega nokkurra stiga frost. Yfir Skerjafirðinum var mikill drungi, himinninn svargrár, og hávaðinn í Fokkernum sem undirbjó flugtak, einhverja þrjátíu metra frá okkur E., gerði ekkert til að verma umhverfið. Ég var sjálfur með tvær húfur á höfðinu, loðhúfu og aðra þynnri undir henni, en E. var húfulaus. Og ég fékk á tilfinninguna að allt sem ég segði við hann hlyti að hljóma mjög kalt í helbláum eyrum hans (sem í raun voru rauð en ekki blá). En þegar við kvöddumst sagði hann mér að honum hefði fundist gaman að hitta mig. Ég þekki E. nógu vel til að vita að hann var ekki að ljúga. Ég var ekki heldur að ljúga þegar ég svaraði honum í sömu mynt, að mér hefði líka fundist gaman, og svo framvegis. Þegar ég hjólaði til baka heim, horfði ég af hjólinu í áttina að Aragötu, og hugsaði enn eina ferðina um hversu gaman væri að búa við þá götu. Og ég hugsaði líka: Viljum við allir, við öll – að minnsta kosti við E. – eitthvað allt annað í lífinu en það sem við höfum nú þegar? Samt heykjumst við á því þegar á hólminn er komið. E. fer að vinna á nýjum stað, en hættir nánast samstundis í því starfi, til að fara á gamla staðinn aftur; ég hjóla framhjá Aragötu, hugsandi um hversu gaman væri að búa þar, en held samt áfram á hjólinu, í burtu frá götunni, eitthvað allt annað – heim til mín.