Snjór yfir öllu. Og það er logn. Á sunnudegi, sem var í fyrradag, geng ég um gamla kirkjugarðinn, og mæti fáum, aðallega köttum, sem þó er bara einn; ég mæti bara einum ketti. Og konu með barn. Þegar konan heilsar mér kemur í ljós að þau eru útlendingar, að minnsta kosti hún, konan. Ég er að hugsa um bókina sem ég les í augnablikinu; það er bók sem einn vinur minn minntist á þegar hann kom í heimsókn síðasta föstudag, og ég var svo heppinn að ná í á bókasafninu – ég á örugglega eftir að minnast á þessa bók aftur, og þá jafnvel í samhengi við vininn sem sagði mér frá henni. En þegar ég geng eftir einum af breiðari stígunum í garðinum, í norðurátt, áttina að Hólatorgi, verður mér litið á háan legstein sem á stendur (og nú breyti ég um nafn, en læt ártölin halda sér): Halldór Sveinsson F. 1863 D. 1947 og kona hans Ég held áfram að horfa á steininn í svolitla stund, en það sem ég les breytist ekkert við að lesa það aftur. Svo horfi ég í kringum mig, og aftur á legsteininn. Snjórinn er ekki bara fallegur, hugsa ég; hann er líka fyndinn.