Um daginn minntist ég aðeins á rithöfundinn Joris-Karl Huysmans í tengslum við nýjustu bók Michels Houellebecq, sem ég gerði að umtalsefni; en Huysmans leikur svolítið hlutverk í þeirri bók. En þetta var um daginn; núna er annar dagur. Ég veit ekki nákvæmlega hvers vegna það gerist, en í augnablikinu, í miðju hinu svokallaða jólabókaflóði, verður mér mjög oft hugsað til áðurnefnds Huysmans, hvernig hann myndi taka sig út í flóðinu, og mér verður ekki síður hugsað til annars fransks rithöfundar, gyðingsins Max Jacob, sem eins og Huysmans snerist til kaþólskrar trúar á efri árum. Það má vel vera að mér hafi orðið hugsað til fleiri látinna rithöfunda í þessu tilliti (hvernig þeir tækju sig út, væru þeir lifandi, í íslenska jólabókaflóðinu), en ég ætla láta nægja að telja upp þessa tvo, Huysmans og Max Jacob. Og af því tilefni langar mig til að rifja upp gamla þýðingu (eða snörun öllu heldur) á prósaljóði eftir Max Jacob; mér finnst það á einhvern hátt eiga mjög vel við á þessum vikum sem nú líða – eða kannski langar mig bara til þess að það eigi við. Ljóðið, sem upphaflega birtist í bók Max, Teningabauknum, árið 1918, og á íslensku í tímariti Bjarts og frú Emiliíu árið 1993, kallast Bókmenntalegir mannasiðir 1: Þegar hópur bókmenntamanna hittir annan hóp er venjan, þegar tekist er í hendur, að fylgja því eftir með brosi. Þegar hópur bókmenntamanna hittir einn stakan herra, og heilsast er með virktum, taka kveðjurnar að dvína frá einum til annars, og það kemur fyrir að sá síðasti í hópnum heilsar bara alls ekki. Ég á víst að hafa sagt á prenti að þú hafir bitið konu nokkra í geirvörtuna og henni hafi blætt. Ef þú trúir því virkilega á mig, af hverju heilsarðu mér þá? Heldurðu að ég myndi heilsa þér ef ég teldi þig trúa því á mig? Svo gerðist það að við hittumst heima hjá einni af þessum barmmiklu konum með gleraugu og prjónasjal á herðunum, þú tókst í hönd mína, og við enduðum uppi í svefnherbergi hennar og þú fórst að henda koddunum hennar í hausinn á mér. Koddarnir voru mjög í anda átjándu aldarinnar. Það er sagt að ég hafi hent þeim aftur í þig í stað þess að biðjast fyrirgefningar, en ég er ekki viss um að það sé alveg rétt. Þegar hópurinn minn hittir þig og ég er síðastur í röðinni og heilsa þér ekki, þá máttu ekki halda að það sé út af þessu með koddana; en ef hópurinn minn hittir hópinn þinn og skipst er á hefðbundnum brosum, skaltu ekki halda að neitt þeirra komi frá mér.