Ungverski rithöfundurinn Dezsö Kosztolányi, höfundur hinnar yndislegu bókar Lævirkinn, lýsti sjálfum sér sem Homo aestheticus, andspænis annarri tegund af rithöfundum: Homo moralis. Af hugrekki og léttúð kaus hann sem höfundur að lýsa hinu „þvaðrandi yfirborði“ en ekki hinu „þögla djúpi“, eins og hann á að hafa orðað það. Með öðrum orðum: hann þóttist einungis hafa eitt yrkis- eða umfjöllunarefni: dauðann. „Ekkert annað,“ skrifaði hann í dagbókina sína. „Það var ekki fyrr en ég var tíu ára, þegar ég horfði á afa minn látinn, þá manneskju sem ég elskaði meira en annað fólk, sem ég varð að mannveru. Það var ekki fyrr en þá sem ég varð að skáldi, listamanni og hugsuði. Hin mikla gjá sem skilur lifendur frá dauðum, þögn dauðans, gerði mér skiljanlegt að ég varð að taka mér eitthvað fyrir hendur. Ég byrjaði að yrkja.“ Svo segist hann sem skáld hafa einungis frá einum hlut að segja; að hann sé að deyja. „Ég hef algera fyrirlitningu á þeim höfundum sem þykjast hafa frá einhverju öðru að segja: frá félagslegum vandamálum, samskiptum karlmanna og kvenna, kynþáttaerjum, og svo framvegis og svo framvegis. Mér verður bókstaflega illt af því að hugsa um þröngsýni þeirra. Hversu yfirborðskennt er starf þeirra, aumingja mannanna, en svo eru þeir svo óendanlega stoltir af því.“ Um daginn hitti ég íslenskan rithöfund (ég ætla ekki að gera honum það, og ekki mér heldur, að nefna hann á nafn) sem trúði mér fyrir því að á undanförnum vikum hefði hann oft verið að því kominn að segja meiningu sína á hinum ýmsu umræðu- og deiluefnum líðandi stundar; að viðra skoðun sína opinberlega. En hingað til hefði honum tekist að halda aftur af sér. „En hversu lengi held ég það út?“ spurði hann mig, án þess vitaskuld að búast við svari. Og hélt síðan áfram: „Maður á ekki að segja neitt um neitt.“ (Ég held ég sé að vitna til hans svona nokkurn veginn orðrétt.) „Maður á að láta þögnina segja það sem manni virkilega liggur á hjarta. Fyrir utan það að manni liggur í raun aldrei neitt á hjarta, nema hugsanlega í nokkrar mínútur í senn, í mesta lagi klukkutíma eða tvo.“ Ég held ég hafi tekið undir hvert einasta orð. Og gerði mitt besta til að hughreysta þennan kunningja minn með áðurnefndum orðum ungverska rithöfundarins, höfundar Lævirkjans – þótt eftir á efist ég um að hughreystingar hafi verið þörf.