Út um gluggann á efri hæð kirkjunnar, af svölunum, þaðan sem ég hef komið mér fyrir til að sjá betur yfir tónlistarfólkið við altarið – og hugsanlega heyra betur í því – vill svo til að ég sé inn um glugga á efstu hæð í fjölbýlishúsi í nágrenninu. Það er kveikt í tveimur gluggum, þetta er greinilega stofan í íbúðinni; og það er líka greinilegt að einhverjar deilur eiga sér stað milli fólks sem statt er í íbúðinni. Eru það íbúarnir? Eða innbrotsþjófar sem koma sér ekki saman um hverju þeir eiga að stela? Það er skrítið að verða vitni að einhverju svona út um glugga á kirkju. Misklíð fólksins lýsir sér í bendingum og áköfum handahreyfingum; þetta eru maður og kona – sem í huga mér útilokar að þau séu innbrotsþjófar. Þegar fyrstu hljómar tónlistarfólksins berast til mín, þar sem ég sit á kirkjusvölunum, er ég of upptekinn við að fylgjast með senunni í fjölbýlishúsinu til að einbeita mér sem skyldi að tónlistinni. En ég skynja þó í henni einhverja uppbyggingu, líkt og fyrstu tónarnir séu að afsaka það sem á eftir kemur. Þetta er ósköp lágstemmt. En um leið og ég veit að tónlistin passar engan veginn við það sem ég sé vera að gerast í glugga fjölbýlishússins veit ég að hún á eftir að verða að einhverju meiru, jafnvel bíta svolítið frá sér. Og ef ég þekki þau sem standa að henni eins vel og ég tel mig gera, þá á lagið – eða verkið, eins og þau vilja eflaust kalla það – eftir að ná ákveðnum hápunkti, og í kjölfar þess punkts fjara út. Þetta er einmitt það sem mér mislíkar við tónlist þessa hóps: hún leitar alltaf í sama áþekka hápunktinn, sem er alltaf svo innantómur og tilgerðarlegur; og síðan kemur langdreginn hali, eins og tónlistarmennirnir þurfi allir að jafna sig eftir eitthvað sem ekkert var. En nú er eitthvað meira að gerast í glugganum. Maðurinn reiðir til höggs. En slær samt ekki strax. Það líður einkennilega langur tími án þess hann láti hendina vaða. En svo gerist það. Og konan sem stendur andspænis honum tekur við högginu. Maðurinn stendur síðan einn eftir; konan er horfin úr rammanum.