Dagar líða. Maður les um einhverja gamla ameríska bíómynd á Þorláksmessu – sem var ekki einu sinni sýnd á Þorláksmessu – svo líða dagarnir og eina ferska lesefnið eru bækur sem komu upp úr jólapakkanum; og varla hægt að segja að þar sé á ferðinni ferskt lesefni, því ekki varð það til í jólapakkanum. Í október á næsta ári verða átta ár síðan Guð var opinberlega beðinn um að blessa Ísland. Það voru sjö ár í október á þessu ári. Og núna er desember. Mér varð um daginn hugsað til íslensks rithöfundar sem gaf út bók núna fyrir jólin. Mér kæmi ekki á óvart þótt einhver spyrji sig núna: Fyrst Guð, svo íslenskur rithöfundur – hvar er samhengið þar? En ég ætla ekki að svara því – ekki beint. Ég vil þó taka fram að mér varð ekki hugsað til þessa íslenska rithöfundar vegna þess að hann gaf út bókina sína, þótt mögulega hafi það eitthvað spilað inn í. Mér varð hugsað til hans vegna sögu sem hann sagði mér einu sinni af sjálfum sér. Fyrir mörgum árum – hugsanlega þremur áratugum eða svo – hætti þessi maður að nota áfengi, og hefur ekki notað það síðan. En einhvern tíma gerðist það (og í því felst sagan sem hann sagði mér) að hann vaknaði einn morguninn með mjög erfiða timburmenn; og þá voru nákvæmlega sjö ár síðan hann hætti að drekka. Honum fannst þetta mjög skrítið. Eiginlega alveg stórfurðulegt. En um leið var hann ekki í minnsta vafa um hver það var sem sendi honum timburmennina. Hann hafði ekki smakkað dropa kvöldið áður; og eins og fyrr sagði: ekki síðustu sjö árin. En samt voru timburmennirnir sem hann fékk þennan morgun verri en hann hafði nokkurn tíma upplifað áður. (Það má vel vera að hér sé ég að ýkja, en það er þá bara vegna þess að íslenski rithöfundurinn var sjálfur að ýkja þegar hann sagði mér söguna.) Og núna heyri ég fyrir mér að einhver spyrji sig: En stóðst hann prófið? Fékk hann sér? (Og hér er auðvitað átt við það sem kallað er afréttari.) Nei, hann fékk sér ekki. Og síðan eru liðin mun fleiri ár en sjö. Það var meira að segja að koma út bók eftir þennan mann um daginn. En ég var búinn að nefna það.