Það er kannski kominn tími til að taka stöðuna á bókinni sem ég gaf út um daginn. Ég verð alltaf hálfvandræðalegur þegar upp kemur spurningin um sölutölur eða gengi bóka sem maður gefur út, en ef til vill er óhjákvæmilegt að velta því öllu ofurlítið fyrir sér. Ég heyrði nefnilega í manni sem ég þekki í gær, sem sagðist hafa keypt þrjú eintök af nýju bókinni minni, og hann ætlaði að biðja mig að skrifa nafnið mitt í hana. Eða í þau, eintökin. Og ég sagðist myndu gera það, með glöðu geði. Svo heyrði ég í móður minni, og hún hafði keypt eitt eintak (af bók sonarins) til að gefa bróður sínum í afmælisgjöf. Þannig að fjögur eintök eru seld. Sem í sjálfu sér er ekki mikið, en eitthvað samt. Varðandi kynningu á bókinni (ef ég velti þeirri hlið útgáfunnar fyrir mér í framhaldi af sölutölunum), þá hef ég til dæmis farið í viðtöl; ég fór í viðtal í Ríkisútvarpinu um daginn; og ég er búinn að lesa upp; ég las upp í Hörpu á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves. Reyndar á ensku, en samt: þetta var upplestur. Svo fer ég á Selfoss á morgun til að lesa upp í Sunnlenska bókakaffinu. Það er alltaf gaman að koma þangað, til Bjarna Harðarsonar. Og aldrei að vita nema fimmta eintakið af bókinni muni seljast á Selfossi. En nú held ég að nóg sé komið af þessum vangaveltum; ég ætla ekki að tapa mér algerlega í eigin sölutölum og kynningu. Ég var nefnilega að hugsa um að tala um svolítið allt annað. Um Jósef Haydn. Jósef Haydn skrifaði 83 strengjakvartetta, 67 strengjatríó, en ekki nema 31 píanótríó. Sinfóníurnar urðu 106. Og óperurnar sirka 13. Það tekur náttúrlega lengri tíma að búa til óperu, því þar þarf að raða tónlistinni í kringum orðin – eða öfugt. En hvað skrifaði hann margar píanósónötur? Þær urðu sextíu og tvær. Og óratóríur? Þær urðu ekki nema ein. Og hana kallaði hann Sköpunina. Viðeigandi nafn á verk sem margir telja höfuðverk Jósefs Haydn. Auðvitað er upptalning mín á verkum Haydns ekki tæmandi, en ég ætla að láta staðar numið hér.