Ég tala við sjálfan mig eins og hálfviti. Ég er hálfviti. Þegar ég geng eftir Lækjargötunni, í átt að Bankastrætinu, með það fyrir augum að fara upp Laugaveginn, sé ég annan hálfvita. Og þegar ég nálgast Hlemm hefur þriðji hálfvitinn orðið á vegi mínum. Við erum að minnsta kosti þrír sem teljumst vera hálfvitar – mér kæmi ekki á óvart að þeir væru fleiri. Reykjavík er full af hálfvitum. (Í síðustu færslu, fyrir viku síðan, minntist ég á að til greina kæmi að skrifa bók sem héti Ferðir mínar um Ísland. Sú hugmynd hefur enn ekki verið slegin út af borðinu, en það er komin ný hugmynd sem í augnablikinu er eitthvað að trufla Íslandsferðirnar; hugmynd sem mér dettur í hug að gæti kallast Ferðir mínar um Reykjavík, en fengi þó væntanlega annan titil, því ég hef ekki hugsað mér að láta þessar ferðabækur líta út sem einhvers konar sería. Textinn hér að ofan, um hálfvitana, yrði þó ekki með í þeirri bók; hann hefur þegar þjónað sínum tilgangi, sem var sá að kveikja hugmyndina að Reykjavíkurferðunum. Í gær, sunnudag, gekk ég niður á Borgarbókasafn í Grófinni til að skila tveimur bókum var ég var með í láni og ná í eina í staðinn. Þá hitti ég hjón sem ég kannast við. Við spjölluðum saman í nokkrar mínútur, meðal annars um bók sem þau voru að skoða (sem er reyndar tímarit: 1005, sem kom út á síðasta ári, þar sem meðal annars er að finna hina fínu sögu Halldóru Thoroddsen, Tvöfalt gler, sem núna er komin út í nýrri útgáfu hjá bókaforlaginu Sæmundi á Selfossi); svo töluðum við eitthvað aðeins um endurminningabækur Hannesar Sigfússonar skálds (sem ekki er síður þörf á að endurútgefa, jafn skemmtilegar og fróðlegar og þær eru); en þegar ég hafði talað við hjónin á bókasafninu í nokkrar mínútur, eins og fyrr sagði, mundi ég eftir að ég var á leiðinni annað: ég var orðinn of seinn á stefnumót við útlenskan mann á kaffihúsinu Stofunni; og ég afsakaði mig við bókasafnshjónin; ég sagði þeim að ég þyrfti að hitta þennan mann, en að það hefði verið gaman að spjalla við þau; og við kvöddumst, og ég gekk út af safninu og í áttina að Stofunni, sem er í Vesturgötu (í húsinu þar sem antíkbúðin Fríða frænka var einu sinni). Ég get vel ímyndað að mér þessi bæjarferð mín muni rata í Reykjavíkurbókina, verði af því að ég skrifi hana. Á einhvern hátt rímar hún við frásögnina af mér og E. á Ísafirði.)