Hundahald vestan Tjarnar er titill á smásögu sem ég hef í hyggju að skrifa. Augljóslega er þetta vísun í Kristnihald undir Jökli (fáránlegt að halda öðru fram); og ég verð víst líka að játa fyrir sjálfum mér að aðalpersóna sögunnar (eins og hugmyndin er í dag) er á vissan hátt í svipuðu hlutverki og umboðsmaður biskups í sögu Halldórs Laxness, nema að því leyti að það er ekki biskup sem sendir hana, persónuna, út af örkinni. En auðvitað á maður ekki að vera að gaspra um eitthvað sem maður ætlar sér að skrifa. Þá verður ekkert úr því. Þessi hugmynd sem ég nefndi, Hundahald vestan Tjarnar, er hluti af stærra verkefni, eins konar smásagnasafni (ekki þó sagnasveig; frekar einhvers konar sagnabeyg – því hvað eru svona skrif annað en enn eitt tilefnið til að byggja upp í sér ótta og kvíða); en núna, þegar ég hef látið eftir mér að gaspra um þessa söguhugmynd mína, þá eru líklega minni líkur en meiri að ég láti verða af því að vinna úr henni. Sem er kannski bara gott. Allajafna er þó viturlegra að sleppa því að tala um eitthvað sem maður ætlar sér að gera, að minnsta kosti þegar um er að ræða bókaskrif. Frekar að tala um eitthvað sem maður hefur þegar skrifað. Í apríl næstkomandi á að koma út úrval smásagna úr þremur bókum sem ég hef þegar gefið út (að vísu er ein bókanna ekki eiginleg bók, heldur hefti í tímaritröðinni 1005). Þessar þrjár bækur eru Nöfnin á útidyrahurðinni, Við hinir einkennisklæddu og Rússneski þátturinn. Titill nýju bókarinnar á að vera Dulnefnin, og undirtitill: sögur 1996 – 2014. Og fyrst ég er á annað borð að tala um titla, þá er líka kominn titill á bókina sem stendur til að Hundahald vestan Tjarnar verði hluti af, en líklega er best að vera ekkert að nefna hann.