Það er ekki hægt að sleppa þessari dagsetningu. Blöðin í dag eru full af viðtölum við fólk sem á ekki afmæli nema á fjögurra ára fresti. En nú að öðru. Þegar ég vann á auglýsingastofu fyrir um það bil einum og hálfum áratug fékk ég einn daginn það verkefni að heimsækja Landsvirkun, og spjalla við upplýsinga- eða kynningarfulltrúa fyrirtækisins um verkefni sem þeir vildu fela stofunni. Mér leist ekkert á það. Ekki vegna þess að ég hefði eitthvað á móti starfsemi fyrirtækisins – mér, sem þannig séð óbreyttum starfsmanni, leyfðist varla að hafa skoðun á því – mér fannst bara ólíklegt að ég gæti hjálpað þeim að búa til texta á því sviði sem þeir fengust við. En ég fór samt á fundinn; ég gat ekki skorast undan því. Fulltrúinn var með skrifstofu á fimmtu hæð hússins; hann sat við stórt og mikið skrifborð og sneri baki í stóra og mikla glugga, þaðan sem útsýni var yfir vestanverða borgina. Þetta var mjög tilkomumikið. Fljótlega eftir að við byrjuðum að spjalla um verkefnið – eða fulltrúinn að spjalla við mig, réttara sagt – tók ég eftir einhverjum hvítum hlut á sveimi fyrir utan gluggann. Þetta var plastpoki. Tómur, sýndist mér. Og ómerktur, sýndist mér líka; ekki merktur neinu sérstöku fyrirtæki eða verslun. Hafi ég meðtekið eitthvað af því sem fulltrúinn var að segja við mig, gleymdist það allt á þessu augnabliki, því öll mín athygli fór í að fylgjast með pokanum. Sjálfur vissi fulltrúinn ekki af honum; hann sneri í hann bakinu. Næstu mínúturnar gerði ég ekki annað en að fylgjast með flugi pokans, og eflaust hef ég undrast hversu lengi hann sveimaði um á þessum ákveðna stað í loftinu. Þetta var mjög falleg sjón. Mér fannst sem pokinn væri að reyna að segja mér eitthvað. Og eftir á að hyggja er ég viss um að hann sagði mér eitthvað. Því ekki sagði fulltrúinn mér neitt, þrátt fyrir að hann léti dæluna ganga um verkefnið allan þann tíma sem pokinn þaut til og frá í loftinu fyrir aftan hann. Ég ætla mér ekki að fara að draga neinar ályktanir af þessari minningu, og þaðan af síður að setja hana í eitthvert „samhengi“; en óhjákvæmilega verður manni hugsað til prósaljóðs Baudelaires um skýin: „skýin sem líða hjá … í fjarska … dásamlegu skýin!“ Mér verður alltaf hugsað til Baudelaires þegar eitthvað gerist.