Tengsl mín við Akureyri eru mestmegnis í gegnum prófarkalesarann Ármann Val Ármannsson og enskukennarann Þorbjörn Gest. Ég veit ekki hversu vel ég þekki þessa menn – mér finnst ég aldrei geta fullyrt að ég þekki nokkra manneskju – en ég er á vissan hátt staddur í miðri sögu þess síðarnefnda í augnablikinu, því ég er staddur á Akureyri (í páskafríi); og seinni hluti sögu Þorbjörns á eftir að vera festur á blað. Hann er búinn að vera í kennarabústaðnum (svolítið síðan það var); hann er búinn að skrifa í gestabókina, bæði fyrir sig og næstu gesti, og búinn að hitta Ármann Val (sem dvaldi þá daga í Davíðshúsi, þar sem mér er sagt að bókasafnshjónin, þau sem ég hitti fyrir nokkrum vikum í bókasafninu í Grófinni í Reykjavík, séu stödd núna) – en Þorbjörn á eftir að fara í sumarbústaðinn aftur. Og þar gerist seinni hluti sögu hans. Í dag er páskadagur. Akureyri er hvít af snjó; og núna ætla ég að grípa til þeirrar alhallærislegustu líkingar sem mér gæti hugsanlega dottið í hug: bærinn er hvítur eins og örkin sem bíður sögu Þorbjörns, þess hluta hennar þegar hann fer aftur frá Akureyri og í bústaðinn til að ná í minniskubbinn sinn. (En meira um þetta síðar.) Er það Akureyri sem veldur því að ég læt mér detta eitthvað svona í hug? Í gærkvöldi, þegar ég gekk í fallegri og mjúkri snjókomu framhjá kirkjunni stóru, um það bil að fara að telja tröppurnar niður að hótelinu, enn eina ferðina, sá ég tvo fjármagnseigendur hverfa inn um kirkjudyrnar. Þeir stigu út úr stórum jepplingi (sem einhver annar keyrði), klæddir millisíðum frökkum: þeim lá á að komast inn í kirkjuna – það var alveg greinilegt.