Í þriðju heimsókn minni (á jafnmörgum árum) í Jólagarðinn í Eyjafirði núna um daginn las ég á skilti fyrir utan búðina þeirra (þá sem selur jólaskrautið og smákökurnar, ekki nýju búðina þar sem hægt er að kaupa sultu og ferskjur í brandípækli) að 272 dagar væru til jóla. Sem merkir þá að í dag eru færri en 270 dagar í jólin – það hreinlega styttist í þau. Og það er aldrei að vita nema maður kíki aftur í þessa skemmtilegu (og stórundarlegu) búð á árinu; það er nefnilega alls ekki út úr myndinni að maður fari aftur norður þegar nær dregur jólum. En óhjákvæmilega hvarflar að manni þessa dagana (þessa skemmtilegu daga) – svo ég snúi mér að öðru – að gaman væri að telja niður ýmislegt annað en þá daga sem eiga eftir að líða til jóla. Og tala niður, ef út í það er farið. En ekki meira um það. Ekki í bili. Ég ætla mér ekki að fara að tala um það sem svo sannarlega lítur út fyrir að ég hafi haft í hyggju að tala um. Ég þarf nefnilega að játa á mig svolitla vitleysu. Í fyrradag nefndi ég hér á þessari síðu að fyrstu setningarnar í Bréfi til Láru væru hinar frægu setningar um Akureyri og norðlenska fólkið. Það er ekki rétt. Fyrstu setningar bókarinnar eru auðvitað (eins og allir vissu, nema ég): Mín góða og skemmtilega vinkona! Það er ekki fyrr en í næsta kafla (sem er reyndar á sömu blaðsíðu) að Þórbergur snýr sér að Akureyri. Og auðvitað ekki hægt að láta hjá liggja að pikka þær setningar inn: Mér fannst Akureyri leiðinlegur bær. Og fólkið var drumbslegt við mig. Það er svo ánægt með sjálft sig. Það er norðlenzkt. Þetta eru auðvitað hans orð, ekki mín. Ég ætla ekki að taka undir þau hér (ekki formlega að minnsta kosti), svona nýkominn að norðan. En það verður að segjast eins og er að síðasta setningin hlýtur að vera einhver eftirminnilegasta setning í íslenskri bók. Það er norðlenzkt. Þórbergur á náttúrlega fullt af setningum sem hljóta að teljast vera flottastar þetta og hitt; það þarf ekki annað en að rifja upp kvæðið um Seltjarnarnesið (annan bæ sem hann lét svo sannarlega finna fyrir því) til að framkalla þann dómínóeffekt sem upprifjun á bókum Þórbergs setur af stað. Ég var einhvern tíma beðinn um að nefna eftirlætislínu úr íslensku ljóði (það var á samkomu hjá Rithöfundasambandi Íslands í Gunnarshúsi), og ég valdi þessa línu hér: Komið þér sælar, jómfrú góð! Ég ætla reyndar að halda aftur af mér með að birta allt kvæðið, en það ætti ekki að vera mikið mál að fletta því upp – maður gerir svona frekar ráð fyrir því að Edda Þórbergs sé tiltæk á flestum heimilum. Ég stenst þó ekki að bæta við næstsíðustu línunni: Á kvöldin heyrast þar kynjahljóð. / Komið þér sælar, jómfrú góð! Er hægt að yrkja betur en þetta? Lifa þar fáir og hugsa smátt. En nóg um það; ég ætlaði alls ekki að tala um þetta; ég ætlaði að tala um Jólagarðinn í Eyjafirði. Í þriðju heimsókn minni í Jólagarðinn, osfrv.