7. mars 2016

Af og til í um það bil þrjátíu ár hef ég reynt að muna nafn á bíómynd sem ég sá í Hafnarbíói í kringum 1975, kannski 76 eða 7, um konu sem giftist dánum manni. Eða dáinn mann sem kvæntist lifandi konu, ef maður horfir á það þannig. Af og til hef ég munað nafnið á myndinni, eða talið mig muna það, en jafnóðum gleymt því aftur (stundum haldið að myndin héti Arthur, og látið þá röngu ágiskun einhvern veginn leiða mig enn fjær hinu rétta nafni). Til að reyna að koma í veg fyrir að ég gleymi þessu enn eina ferðina, að minnsta kosti um sinn – nú þegar ég hef rifjað þetta upp að nýju með aðstoð netsins – hef ég ákveðið að setja hér litla færslu um myndina. Ég man að hún var fyndin, en ég man líka enn betur að hún vakti með mér mikinn hrylling. Ég hef örugglega verið dauðhræddur, skjálfandi á beinunum, þegar ég gekk út úr dapurlegum bragganum sem hýsti Hafnarbíó, og inn í myrkrið og kuldann á Barónsstígnum. Hver man ekki eftir Hafnarbíói? Ég man meira að segja eftir að hafa spilað þar á tónleikum. Ég tel mig muna það. Ég man að minnsta kosti eftir að hafa verið á tónleikum þar. „Ég man.“ (Þegar kemur að því að maður setur saman bók í anda Brainards, Perecs og Þórarins Eldjárns, um það sem maður man, á þetta eftir að lenda þar.) Það sem reyndar olli því að ég fór að hugsa um myndina Arnold að þessu sinni var umræðan á Íslandi síðustu vikur og mánuði um forsetakosningarnar. Þær íslensku, það er að segja. Það getur vel verið að á næstu vikum dúkki upp einhver frambjóðandi sem maður gæti hugsað sér að kjósa, fremur en einhvern annan (sem hugsanlega er þá þegar kominn fram); en það sem mér finnst mest aðlaðandi hugmyndin sem ég hef heyrt til þessa er að framliðinn einstaklingur verði fundinn í hlutverkið, að þjóðin kjósi yfir sig látinn forseta. Mér finnst það reyndar mjög góð hugmynd. En meira um þetta síðar, eins og sagt er. Þegar ég heyrði þessari hugmynd fleygt fyrst (það var í sumarbústað fyrir um það bil hálfu ári) voru nefnd nokkur nöfn framliðinna einstaklinga sem kæmu til greina sem forsetar, en það er kannski ekki tímabært að varpa þeim fram strax. En hér er bíómyndin sem ég minntist á. Hún heitir Arnold, og Roddy McDowall leikur í henni: