18. apríl 2016 (aukafærsla)

Ég ætlaði að segja eitthvað, af augljósu tilefni – vissi alveg að það yrði svona „undirkafli“, eftir að forseti boðaði blaðamannafund – en svo varð mér óglatt – það getur gerst – og ég ákvað að hafa bara hérna stuttan texta úr 1005-heftinu Styttri ferðir, sem kom út fyrir tveimur árum. Þetta er seinni textinn af tveimur sem voru samhangandi í tímaritinu; og ég geri mér vel grein fyrir því núna að Mercedes Benzinn, sá sem sagt er frá í textanum, átti í raun að vera Lexus; ég komst að því fljótlega eftir að tímaritið var prentað að forseti Íslands ekur ekki lengur um á Benz, heldur Lexus.

 

NIÐUR Í IÐNÓ – OG TIL BAKA

 

Góður vinur minn var tilnefndur til verðlauna í sínu fagi. Það átti að veita þau niðri í Iðnó við Tjörnina. Og mér var boðið. Það var þó ekki laust við að mér fyndist svolítið óþægilegt að fara á slíka samkomu, því verðlaunahafar yrðu ekki tilkynntir fyrr en á hátíðinni. Og það gat brugðið til beggja vona, eins og sagt er. Ég var þó nokkuð bjartsýnn um að verðlaunin myndu falla í réttar hendur, svo ég ákvað að fara. Það er ekki nema nokkurra mínútna gangur frá Laufásveginum niður í Iðnó. Ég fór í fínu skóna mína og lagði af stað. Ég var í góðu skapi. Sem var synd, í ljósi þess að það átti ekki fyrir mér að liggja að njóta þess að vera í góðu skapi, að minnsta kosti ekki í því umhverfi þar sem einmitt hefði verið svo gaman að vera í góðu skapi. Hið góða skap mitt myndi heldur ekki nýtast vini mínum, ef svo má að orði komast; honum sem var í þann veginn að fara að fagna svolitlum áfanga í lífi sínu, færi svo að ég hefði rétt fyrir mér að hann hlyti verðlaunin. Þegar ég kom fyrir hornið á Iðnó, þeim megin sem styttan af óþekkta embættismanninum stendur, sá ég svartan Mercedes Benz sem var lagt á horni Vonarstrætis og Templarasunds; glansandi svartan og stóran Benz, sem líkt og stóð skrifað utan á að hefði leyfi til að leggja þarna á horninu, ólíkt öðrum bílum. Og ég sagði við sjálfan mig að þetta væri sá svarti bíll sem ég var að vona að yrði ekki fyrir utan Iðnó. Því ég vissi hver ók um í þessum bíl. Eða réttara sagt: hverjum var ekið um í honum. Ætli hafi ekki tekið mig um það bil hálfa mínútu að ákveða að snúa til baka. Mig langaði ekki lengur til að fara á hátíðina. Og ég sneri til baka. Ég myndi síðan hringja í vin minn eftir klukkutíma eða svo, til að forvitnast um hvort hann hefði fengið verðlaunin.