Það var boðið mér í afmælisveislu á föstudaginn. Sem var í gær. Var mér boðið það á föstudaginn í afmælisveislu? Mér boðið það var í afmælisveislu á föstudaginn. Á föstudaginn var mér það boðið í afmælisveislu. Í afmælisveislu á föstudaginn mér boðið það var. Var þar boðið upp á veganbrauðtertu. Á veganbrauðtertu boðið upp þar var. Og svo framvegis. Í veislunni hitti ég manneskju sem ég hef ekki hitt lengi. Ég sparkaði í sköflunginn á henni. Sköflunginn á henni sparkaði ég í. Og ég gleymdi að koma með afmælisgjöf. Með afmælisgjöf gleymdi ég að koma og. Og hvað? Þessi manneskja sem ég hafði ekki hitt lengi fór að tala við mig. Að ég hafi sparkað í sköflunginn á henni er reyndar svolítið ýkt. Ég gerði það alls ekki. En við töluðum saman. Og um hvað? Nú, auðvitað bækur, en líka um sjónvarpsþætti. Ég sagði henni að ég væri nýbúinn að horfa á alla Breaking Bad-seríuna; að ég væri eiginlega ekki samur eftir þá reynslu. En núna er ég aftur að ýkja; ég orðaði þetta alls ekki svona. Ég er nákvæmlega sá sami og ég var, nema hugsanlega að því leyti að ég er nokkrum dögum eldri en ég var þegar ég lauk við að horfa á þættina. Það gerðist á Akureyri; það var þar sem ég kláraði áhorfið. Akureyri – Albuquerque. „Mér finnst ég hafa verið að lesa [í merkingunni að horfa á] mjög langa skáldsögu,“ sagði ég við manneskjuna í afmælisveislunni; og ég átti við Breaking Bad. Í framhaldi fórum við að tala um aðrar skáldsögur, aðallega út frá því hvernig löngum skáldsögum er stundum skipt upp í hluta eða aðskild hefti eða bækur. Manneskjunni fannst t.d. fyrsti hluti Íslandsklukkunnar eftir Halldór Laxness mun betri en þeir sem komu á eftir; en þá sagði ég eitthvað á þá leið að það þýddi ekki fyrir hana (manneskjuna) að ræða við mig um Íslandsklukkuna; ég hefði engan áhuga á henni – besta bók Halldórs Laxness fyndist mér vera Kristnihald undir Jökli. Ég sagði þetta í og með til að athuga hver viðbrögð manneskjunnar yrðu, því ég hafði einhvern tíma lesið frekar neikvæð orð frá henni um þessa tilteknu skáldsögu Halldórs Laxness. Og það stóð ekki á viðbrögðunum: manneskjan sagði ekki neitt; það var eins og hún vildi að við breyttum um umræðuefni sem fyrst. Og við gerðum það. Var þetta ef til vill augnablikið sem mér datt í hug að ég ætti að sparka í sköflunginn á henni? Mig hefði langað til að tala meira um Kristnihald undir Jökli. Mér finnst það ein af skemmtilegustu (og um leið bestu) bókum sem ég hef lesið. Susan Sontag er líka á þeirri skoðun að Kristnihaldið (Under the Glacier, eins og hún kallast í enskri þýðingu Magnúsar Magnússonar) sé ein af fyndnustu bókum síðustu aldar, eða hvaða aldar sem er. En töluðum við, ég og umrædd manneskja í afmælisboðinu, um forsætisráðherra Íslands og fjármálaráðherra? Nei, það vannst ekki tími til þess. Hefði okkur gefist lengri tími – bæði var það að ég þurfti að fara annað, og í raun stóð afmælisveislan ekki lengi; þetta var svona síðdegisboð, og afar vel heppnað sem slíkt – þá hefðum við án nokkurs vafa tekið smá snúning á forsætis- og fjármálaráðherrunum. „En ég ráðlegg þér að horfa á restina af Breaking Bad,“ sagði ég við manneskjuna undir lok spjallsins. (Hún hafði horft á eina eða tvær af seríunum sex.) „Ég hef aldrei séð fjallað jafn ítarlega um lygina áður,“ bætti ég við. (Reyndar sagði ég það aldrei; ég er að búa það til núna. Með öðrum orðum: að ljúga. Auk þess sem ítarlega er ekki vel til fundið orð í þessu samhengi. Sem er auk þess ekki vel til fundið orð í þessu ítarlega samhengi.) Svo kvöddumst við.