Það er svolítið fyndið að ég skyldi byrja eina færsluna um daginn á orðunum „Það var hringt í mig“, því nú í gær var einmitt hringt í mig aftur; en í þetta sinn var það í tilefni af bókinni sem kemur út í dag. Ég var beðinn um að „koma í viðtal“, eins og það er kallað. Manneskjan sem hringdi heitir Rósa Sæberg. Ég er alltaf hálfskeptískur gagnvart þeim sem vilja hafa viðtöl, nema auðvitað að ég þekki fólkið; en mér fannst ég strax skynja á þessari Rósu að ekkert „skrítið“ lægi að baki ósk hennar um viðtalið; mér fannst ég jafnvel þekkja manneskjuna, eftir að við höfðum spjallað saman smástund (þá eingöngu um það hvort af viðtalinu yrði eða ekki). Enda vissi hún að ég væri að gefa út bók. Mér fannst ekki síður góð hugmynd hjá henni að vilja byrja viðtalið á tilvitnun í annan höfund; þetta var eitthvað sem hún sagðist alltaf gera, og hún sagðist ennfremur vona að ég „hefði ekkert á móti því“. Þvert á móti; mér fannst það vel við hæfi. Tilvitnunin reyndist vera í franska höfundinn Louis-Ferdinand Céline: Skemmtigarðar eru óheflaðir staðir. Það er ekki hægt að vera fágaður þegar maður leikur sér. Fangelsi er aftur á móti göfugur staður. Þar þjáist maður. Og í því felst fágun. Lengri var tilvitnunin ekki. Og þá kom fyrsta spurningin: „Nú birtir þú ljóð í fyrra, í Tímariti Máls og menningar, sem nefnist …“ (Ég læt titilinn ekki fylgja, því hér hafði Rósa rangt fyrir sér; ég birti nefnilega ekki ljóð í Tímariti Máls og menningar í fyrra.) „Ég gerði það reyndar ekki,“ svaraði ég; og mér fannst skrítið hversu lítið það kom Rósu á óvart að hún hefði farið rangt með staðreyndir, og það í fyrstu spurningunni. Ég hef sjálfur rangt fyrir mér í þessu samhengi, því auðvitað var ekki um neinar staðreyndir að ræða; ég birti aldrei smásögu í Tímariti Máls og menningar á síðasta ári, hvað þá grein eða ritdóm. Ég birti hreint ekki neitt í því tímariti; ég hafði öðrum hnöppum að hneppa á síðasta ári, meðal annars þeim „hnappi“ að gefa út skáldsögu. (Gat verið að þessi Rósa vissi ekki af henni?) „Og nú er sem sagt að koma út ný bók eftir þig,“ hélt hún áfram; og í framhaldi nefndi hún titil nýju bókarinnar (sem hún fór rétt með), og þá „staðreynd“ að bókin innihéldi smásögur úr áður útgefnum bókum. Hún nefndi meira að segja titla þeirra bóka (sem eru fjórar), og fór rétt með þá alla, nema titilinn Við hinir einkennisklæddu; hún kallaði þá bók Hinir einkennisklæddu. Ég jánkaði þessu þó öllu; mér fannst óþarfi að trufla frekar flæði viðtalsins, ef þannig má að orði komast. „Að trufla flæðið“ svona strax í upphafi spjalls vill oft verða til þess að allt framhaldið höktir, eins og ósmurð vél, og nær sér ekki á strik aftur. Næst spurði Rósa (eða þannig hóf hún næstu spurningu): „Í formála bókarinnar …“ Og nú varð ég að leiðrétta hana aftur, því það er enginn formáli í bókinni, einungis eftirmáli. (Og rétt að nefna að sá eftirmáli er ekki skrifaður af mér; hann er skrifaður af Guðrúnu Láru Pétursdóttur, sem fyrir einu og hálfu ári kláraði MA-ritgerð um mínar bækur, með áherslu á tvær þeirra, Hvíldardaga og Samkvæmisleiki. Sú ritgerð segir mér ýmislegt sem ég ekki vissi, eða hafði ekki gert mér grein fyrir, að væri að finna í bókunum mínum. Ég er ekki síður ánægður með eftirmálann sem fylgir hinu nýja smásagnaúrvali sem kemur út í dag.) En þegar hér var komið sögu í símtalinu við Rósu Sæberg var ég farinn að fá á tilfinninguna að ef til vill vissi hún ekki mikið um þessa nýju útgáfu mína (hafði hún ekki fengið eintak frá útgefanda til að kynna sér fyrir spjallið? nei, líklega ekki; ég fæ sjálfur ekki höfundareintökin mín fyrr en í dag, útgáfudag); og mér varð hugsað til öftustu sögunnar í bókinni (sem – kannski rétt að nefna það – heitir Dulnefnin, sögur 1996 – 2014, það er að segja bókin); sögu sem nefnist Forstofan (og skiptist í tvo hluta: Dyrabjöllunni hringt og Gegnum símann), þar sem ókunnugur maður bankar upp á hjá sögumanni (eða hringir bjöllunni, eins og segir í titlinum) og spyr hvort hann megi hirða tómar flöskur sem kunni að hafa safnast saman hjá sögumanni. Ég ætla ekki að segja meira frá sögunni hér; og líklega er ástæðan fyrir því nokkuð augljós, því ég er að reyna að kynna bókina mína, og vil síður rekja efni hennar áður en hugsanlegir lesendur (og/eða kaupendur) kynna sér það af eigin raun. Viðtalið við Rósu Sæberg virðist sömuleiðis hafa fengið fremur snöggan endi, en það var ekki mín sök. Fljótlega eftir að þessi kona, Rósa, hafði flaskað á þessu með formálann og eftirmálann, fékk ég á tilfinninguna að líklega væri hún ekki rétta manneskjan til að taka við mig viðtal. Og ég held hún hafi skynjað það sjálf; að réttast væri að setja punktinn þarna; þessu væru í raun sjálfhætt. Til að bæta þeim það upp sem áttu von á lengra spjalli datt mér í hug að láta fylgja eitthvert lag af youtube, til dæmis með hljómsveitinni Emerson, Lake & Palmer (það er minnst á Keith heitinn Emerson í einni sögu bókarinnar), eða jafnvel eitthvað eftir Jósef Haydn (það er leikinn eftir Haydn strengjakvartett í sögunni Stofutónlistin); en ég hætti þó við að hafa músík; mér fannst fullmikið að vera aftur með músík; það var músík í fyrradag. Í staðinn dettur mér í hug að hafa ljóð úr ljóðabókinni Rómantískt andrúmsloft, sem kom út árið 2012, vegna þess að með því ljóði fylgir í raun myndefni; það er byggt á ákveðinni mynd, ljóðið. Og það birtist upphaflega í Tímariti Máls og menningar, en ekki í fyrra (eflaust hefur Rósa Sæberg eitthvað ruglast á ártölum; líklega haldið að 2015 væri 2012). Ritstjóri Tímarits Máls og menningar, Guðmundur Andri, vildi láta ljósmyndina fylgja með ljóðinu þegar það birtist í tímaritinu, en ég vildi það ekki; og nú sé ég eftir að hafa ekki samþykkt hugmynd Guðmundar Andra, því auðvitað á myndin að fylgja ljóðinu: myndin er ljóðið – og öfugt.
LJÓSMYND AF STEFNUMÓTI BENEDIKTS PÁFA OG FORSETA ÍSLANDS Í VATIKANINU
Hægri helmingur myndar, með gulu veggfóðri og opnum dyrum
Myrkur fellur yfir Kína. Youngsun-bar hefur verið lokað tímabundið vegna breytinga á innréttingum. Hinir áfengu drykkir munu vísa þér veginn inn í hinn ölvaða alheim. Drekktu í þig hið rómantíska andrúmsloft. Það er á þriðju hæðinni. Á þriðju hæðinni geturðu gleymt stað og stund – þar er hinn ölvaði alheimur. Á meðan Kína eykur hermátt sinn dag frá degi ríkir rómantískt andrúmsloft á þriðju hæðinni á Youngsun-bar. En þar er lokað tímabundið. Þar er lokað vegna breytinga á innréttingum. Drekktu í þig hið rómantíska andrúmsloft; hinir áfengu drykkir munu opna þér dyrnar að ölvuðum alheiminum. En hvar er vor heimur staddur á sínu hringsóli? Var manneskjunum ætlað að veita hver annarri liðsinni í þrautum sínum? Eru opnar dyr tákn fyrir eitthvað annað en það sem þær eru?
Vinstri helmingur myndar, með hvítum gluggatjöldum og forseta og páfa
Myrkur fellur yfir Kína. Youngsun-bar hefur tímabundið verið lokað vegna breytinga á innréttingum. Ég er forseti Íslands. En ekki beint karakter í það starf. Svo ég er ekki forseti Íslands. Það er annar. Ég vex eins og blóm upp úr iittala-vasanum. Ég elti froskinn niður af borðbrúninni, ef við hefðum froska á Íslandi. Ég er sjálfur páfinn. Ef við hefðum páfa. Þannig að það er ekki. Ég fæ mér drykk á Youngsun-bar. Við höfum svoleiðis. Eitthvað mjög svipað. Eitthvað alveg eins. Á Youngsun-bar er lokað tímabundið. Það er verið að skipta um andrúmsloft, það er verið að sveigja það meira inn á línu hinnar sívölu mýktar, það er verið að gera það meira suave.