Ég veit það hljómar einkennilega – og beinlínis eins og ég sé að ljúga því – en Rósa Sæberg, sú sem hringdi í mig fyrir þremur dögum, hringdi aftur í mig í gær, tveimur dögum eftir að hún hringdi í mig fyrst. Ég veit ekki hvað hún ætlar sér með viðtalið sem hún hugðist taka við mig – eða tók (maður getur allt eins orðað það svo) – en hún sagðist vera með „viðbótarspurningu“. „Og hver er hún?“ spurði ég, ekki alveg laus við að hljóma pirraður, enda var ég það; mér finnst engin ástæða til að leyna því. Og í raun hefði ég átt að verða enn pirraðri þegar ég fékk að heyra spurninguna; en ég varð það ekki. Mér fannst spurningin áhugaverð – eða ef til vill er réttara að segja að mér hafi fundist hún spennandi. Hún (Rósa) spurði mig hvort ég þekkti „Lindu Gylfadóttur“. Mér heyrðist hún fyrst segja Linda Gísladóttir, og mér varð strax hugsað til söngkonunnar í Lummunum; en það var Linda Gylfadóttir. Ég veit ekki hvers vegna mér fannst eitthvað „spennandi“ við þessa furðulegu spurningu (og enn síður hvort raunverulega sé eitthvað „furðulegt“ við hana); en ef til vill lá „spenningurinn“ í nafninu sjálfu; nöfn hafa auðvitað mismunandi áhrif á mann, ekki síst þegar maður heyrir þau í fyrsta skipti, og látið er að því liggja að þau tengist manni á einhvern hátt. Ég sagðist ekki þekkja þetta nafn; og fékk þá skýringu á spurningunni að Linda Gylfadóttir væri mágkona Rósu Sæberg; Linda hefði sagt Rósu (þegar Rósa sagði henni að hún hefði verið að taka viðtal við mig) að hún, Linda, hefði hitt mig í árgangsafmæli Hagaskólans fyrir nokkrum árum; hún hefði sjálf ekki verið í Hagaskóla, en farið með vinkonu sinni í afmælið (hvers vegna vissi Rósa ekki). Ég sagðist ekki muna eftir þessu, og afsakaði mig með því að ég væri ekki mjög mannglöggur; ég þyrfti yfirleitt að hitta fólk nokkrum sinnum áður en hægt væri að ætlast til þess af mér að ég heilsaði því á götu – að ég myndi eftir andlitinu. En um leið og ég sagði þetta við Rósu gerði ég mér auðvitað grein fyrir því að hún var ekki að sýna mér andlit þessarar Lindu; hún var einungis að nefna nafn hennar. „Þetta er ekki dulnefni einhverrar annarrar manneskju?“ spurði ég, en vissi um leið að sú spurning var einhvern veginn fullkomlega út í hött. Enda svaraði Rósa henni ekki beint; og símtalið varð ekki mikið lengra; hún sagðist bara hafa viljað spyrja mig að þessu. Um leið og ég lagði niður símtólið sá ég eftir að hafa ekki spurt hana út í viðtalið sem hún ætlaði að taka við mig fyrir þremur dögum; hvort hún hefði eitthvað í hyggju með það. En svo hugsaði ég: hvaða viðtal?