25. maí 2016

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Á meðan ég var erlendis um daginn – það var held ég á þriðjudaginn var, fyrir rétt rúmri viku – fékk ég þá hugmynd að leita uppi áðurnefnda, eða títtnefnda, Rósu Sæberg, blaðakonuna sem hefur verið að hringja í mig undanfarið. Mig langaði til að deila með henni hugmynd sem mér datt í hug að myndi vekja áhuga hennar, í ljósi viðleitni hennar til að fjalla um bókina mína – eða hvað það var sem annars vakti fyrir henni. Ef til vill var þessi hugmynd mín í hégómlegri kantinum, en með það í huga að svo kynni að vera sagði ég við sjálfan mig: Hvers vegna alltaf að vera að velta slíku fyrir sér? Má maður ekki vera hégómlegur stundum? Til að gera langa sögu stutta (sem ég tek þó fram að ég lít ekki á sem dyggð – langt í frá – að gera langa sögu stutta), þá langaði mig einfaldlega til að heyra sjálfan mig, eða sjá, svara nokkrum spurningum sem mig hefur gjarnan langað til að ég yrði spurður. Og þess vegna datt mér í hug að fara þess á leit við Rósu Sæberg – ef ég næði í hana (sem ég síðan gerði) – að hún sendi mér nokkrar spurningar varðandi smásagnasafnið mitt, og mig persónulega; og ég myndi annað hvort svara þeim spurningum í pósti, nú eða spjalla við Rósu í síma. Ég tók sérstaklega fram við hana að „auga fyrir auga“ væri ekki valkostur. Not an option, eins og ég orðaði það þegar Rósa sagðist ekki skilja hvað ég ætti við með orðinu valkostur. Það kom mér síðan ekki á óvart hversu vel hún tók í þessa sérkennilegu hugmynd mína (sé hún á annað borð sérkennileg). Ekki heldur að Rósa virtist hreint ekki muna eftir mér frá því um daginn. Það var ekki fyrr en ég spurði hana um vinkonu hennar Lindu; hvort hún, Linda, væri enn að furða sig á að ég myndi ekki eftir henni frá því í skólaafmælinu (the reunion, eins og ég þurfti að ítreka til að Rósa áttaði sig á hvað ég meinti), að myndin af mér (eða hugmyndin um mig) skýrðist í höfði Rósu. „En hvers konar spurningar hafðirðu í huga?“ spurði hún; og ég lagði til að hún byggði á þeim spurningum sem hún hafði ætlað sér að leggja fyrir mig í „fyrra“ viðtalinu, því sem hún hugðist taka fyrir nokkrum vikum, og sem á einhvern furðulegan hátt liðaðist í sundur eins og skýhnoðrar í hádegissólinni. Og ég stakk upp á því að best væri að „stjórna“ viðtalinu (conduct the interview) í gegnum tölvupóst; það myndi spara okkur báðum yfirlestur og leiðréttingar. Rósa virtist ekki almennilega átta sig á hvað ég meinti með því. Hún spurði mig hvar þetta viðtal myndi birtast. „Mér datt í hug að birta þetta á heimasíðunni minni,“ svaraði ég, en sú hugmynd virtist ekki vekja mikinn áhuga Rósu; hún afsakaði sig, og ég heyrði gegnum símann að hún fékk sér sopa af einhverju – það tók hana reyndar heillangan tíma, undarlega mikinn – og síðan sagðist hún myndu senda mér spurningarnar „fljótlega“, og kvaddi mig (á meðan hún fékk sér annan sopa af því sem hún var að drekka). En svo sannarlega stóð hún við það sem hún lofaði, því spurningarnar komu í tölvupóstinum tveimur klukkustundum síðar. (Þá var klukkan hjá Rósu – á Íslandi, það er að segja – það sama og hún var hjá mér þegar ég talaði við hana í símanum, vegna þess að í landinu sem ég var staddur í er klukkan tveimur tímum á undan klukkunni á Íslandi, að minnsta kosti á þessum árstíma.) En hér kemur viðtalið – það er óþarfi að orðlengja þetta frekar. Það má reyndar vera að sumar spurningar Rósu séu lítið eitt „endurhannaðar“ eða breyttar af minni hálfu; þær voru satt að segja nokkuð misvel orðaðar þegar ég fékk þær í hendurnar. Auk þess voru nokkrar þeirra á einhvern hátt svo skringilegar að mér finnst núna að ég þurfi að gefa mér meiri tíma til að íhuga hvort ég leyfi þeim yfirhöfuð að þvinga mig til svars.

 

NÚ GAFST ÞÚ ÚT BÓK UM DAGINN. GEFUR ÞAÐ VEL AF SÉR AÐ GEFA ÚT BÓK Á ÍSLANDI?

Jú, ég gaf út smásagnaúrval fyrir nokkrum vikum.

 

GEFUR ÞAÐ VEL AF SÉR AÐ GEFA ÚT BÓK Á ÍSLANDI? Nei, það gerir það nú yfirleitt ekki, nema að bókin seljist í nokkrum þúsundum eintaka, sem mér finnst ólíklegt að mín bók muni gera.

 

GETURÐU SAGT MÉR EITTHVAÐ UM ÞESSA NÝJU BÓK?

Hún kallast Dulnefnin, sögur 1996 – 2014, og er úrval sagna úr þremur smásagnasöfnum mínum, auk tveggja sagna úr ljóðabókinni Rómantískt andrúmsloft.

 

ERTU RÓMANTÍSKUR? [Ég verð að játa að þessi spurning kom mér svolítið á óvart, í ljósi þess að ómögulegt var að Rósa vissi hvert svar mitt yrði við spurningunni á undan. En það má segja að hún hafi komið mér þægilega á óvart. – innsk. Br.]

Já. En mér er alveg fyrirmunað að sýna það.

 

AÐ ÞÚ SÉRT RÓMANTÍSKUR? [Aftur kom hún mér á óvart. – innsk. Br.]

Já.

 

EF ÞÚ MYNDIR KJÓSA Í FORSETAKOSNINGUNUM Í JÚNÍ, HVAÐA FRAMBJÓÐANDA MYNDIRÐU ÞÁ KJÓSA?

Ef ég myndi kjósa? Ég myndi kjósa Andra Snæ Magnason. Ég sé engan annan ferskan einstakling í boði – eða ferskari en Andra, það er að segja – sem gæti hugsanlega ýtt hinu íhaldssama Íslandi fram á við, og veitt viðspyrnu þeim afturhalds- og niðurrifsöflum sem núverandi stjórnarflokkar eru fulltrúar fyrir. Hvað varðar fylgjendur ritstjóra Morgunblaðsins í þessari keppni, þá á ég erfitt með að sjá það fólk sem annað en brjálæðinga. Annars fyndist mér forvitnilegt að vita hversu margir ætla sér að kjósa Guðna Th. fyrir þá ástæðu eina að þeir telja ekki að Andri Snær eigi möguleika. Þótt ritstjóri Morgunblaðsins myndi mælast með jafnmikið fylgi og Guðni Th. í síðustu skoðanakönnuninni fyrir kosningar, og Andri Snær með nánast ekkert, ætla ég samt að kjósa Andra. Maður á að kjósa þá manneskju sem maður heldur að sé besti kosturinn. Guðni Th. er fínn, en Andri yrði að mínu mati besti forsetinn. Það hefur ekkert með bækur hans að gera; ég þekki þær ekki svo vel. En þú, Rósa? Hvernig horfir þetta við þér? [Veit svo sem vel að spurningin er út í hött – það er ekki Rósa sem er í viðtali – en ég er þó einlæglega forvitinn að vita svarið. – innsk. Br.]

 

ÉG MAN AÐ VINKONA MÍN, LINDA GYLFADÓTTIR, SAGÐI MÉR AÐ ÞÚ HEFÐIR EINU SINNI VERIÐ Í HLJÓMSVEIT. NÚ MAN ÉG EKKI HVAÐ SÚ HLJÓMSVEIT HÉT, EN HLUSTARÐU MIKIÐ Á TÓNLIST, OG HVAÐ ER HELST Í UPPÁHALDI HJÁ ÞÉR?

Jú, ég var einu sinni í hljómsveit, meira að segja oftar en einu sinni. (Það kemur mér svolítið á óvart að þú munir ekki hvað „sú hljómsveit“ heitir – eða hét.) Og ég hlusta mikið á tónlist. En er það virkilega þetta sem þú vilt ræða, Rósa? Ég myndi heldur kjósa að fá spurningar um bókina sem ég var að gefa út, og þess vegna líka spurningar um aðra nýja bók: Neyðarútgang, þýðingar á ljóðum pólska skáldsins Ewu Lipsku, sem var að koma út hjá bókaforlaginu Dimmu. Ég þýddi þar nokkur ljóð, með aðstoð Olgu Holowniu, sem sá um útgáfuna og þýddi flest ljóðanna. Hinir þýðendurnir eru Áslaug Agnarsdóttir, Magnús Sigurðsson og Óskar Árni Óskarsson. Ég verð að mæla alveg sérstaklega með þessu ljóðasafni. Ewa hefur alveg hreint einstaka rödd sem skáld, og býr til alveg nýtt samhengi úr hlutum og orðum. Annars veit ég (og núna er ég að tala við þig, Rósa) að Óskar Árni veit hver þú ert. Og mér fyndist gaman að láta fylgja það sem hann sagði mér um þig – sem er býsna áhugavert – en eins og ég var búinn að nefna, þá snýst þetta viðtal ekki um þína persónu. Hvað varðar tónlistina í spurningu þinni, þá keypti ég mér um daginn nýjustu plötu hins kanadíska Rufusar Wainwright, Take all my loves, með lögum hans við nokkrar af sonnettum Shakespeares. Og ég hef verið að hlusta á hana frekar mikið. Dásamleg plata, eins og flest sem Rufus gefur út. Fljótt á litið er þetta fullkomlega ómöguleg blanda tónlistar – það ægir í raun öllu saman; „þægilegu“ poppi, þýskri sönglagamúsík, mahlerískum ljóðasöng, hörðu rokki og leikrænum ljóðalestri, bæði á ensku og þýsku, og eflaust má segja að þetta sé allt eitt óyfirstíganlegt fjall af kitsi – en það sem fær plötuna til að ganga upp sem heild, og það sem gerir manni kleift að hlusta á hana út í gegn er hinn óendanlega sjarmerandi karakter Rufusar sjálfs, bæði sem lagahöfundar og söngvara. Fyrir nokkrum árum hefði mér fundist óhugsandi að ég gæti hlustað á eitthvað sem hægt væri að flokka sem óperupopp, en þegar Rufus er annars vegar, þá er allt mögulegt, svo ég gerist dramatískur. Fyrir utan þetta hef ég verið að hlusta mikið á flamenco (El Camarón og Carmen Linares, til dæmis) og spænskar „coplas“ með Juanito Valderrama og Rocío Jurado. En hefur þú, Rósa, hlustað (eitthvað nýlega) á lagið December, 1963 (Oh, what a night) með Four Seasons? [Vitaskuld fæ ég ekki svar við þeirri spurningu, en ég stenst samt ekki freistinguna að spyrja. Rósa getur í það minnsta rætt þetta við Lindu, vinkonu sína; ég þykist vita að Linda þekki lagið með Four Seasons – sé á annað borð rétt að hún þekki gamla skólasystur mína. Allir í skólanum okkar þekktu þetta lag, og flestir hafa væntanlega dansað við það, meira að segja ég. – innsk. Br.]

 

ERTU MEÐ EITTHVAÐ Á PRJÓNUNUM Í AUGNABLIKINU?

Ég er að skrifa skáldsögu sem nefnist Staða pundsins. Hún fjallar um mæðgin (ekkju og son hennar); og sögutíminn er miður áttundi áratugur síðustu aldar. Það er kannski vitleysa að vera að láta uppi titla á bókum sem eru í vinnslu – á sama hátt og það er galið að vera að tjá sig um efni þeirra eða söguþráð – en mér fannst eins og þú, Rósa, ættir það inni hjá mér að ég nefndi þetta, hvað svo sem gerist með titilinn, hvort hann verður á vegi þínum í búðinni eða á safninu þegar þar að kemur – og hvort hann lifir bókina af. Ég er heldur ekki viss um að …

 

(Eins og ég nefndi hér á undan „spjalli“ okkar Rósu, voru nokkrar af spurningum hennar þess eðlis að ég hef ekki enn gert upp við mig hvort viðeigandi sé að svara þeim. Það verður að koma í ljós. Þar fyrir utan líður mér eitthvað einkennilega núna – það er einhver svimi eða eitthvað – og mér finnst ekki rétt, hvorki gagnvart lesendum né mér sjálfum, að vera að tjá sig í slíku ástandi.)