Ef ég hefði ekki á tilfinningunni að opinber stuðningur minn við framboð Andra Snæs myndi koma honum illa, væri ég fyrir löngu búinn að styðja hann opinberlega. Í mínum augum er hann eini maðurinn (og eina konan, ef því er að skipta) – ekki síst eftir „spjall“ í Eyjuþættinum á Stöð tvö í dag – sem myndi fúnkera sem fulltrúi þjóðarinnar á hinum fáránlega stað, Bessastöðum. (En talandi um þennan sjónvarpsþátt í dag. Mér er frekar illa við að þakka mér sjálfum fyrir eitthvað opinberlega – og nú skynja ég að eitt stórt og merkingarþrungið EN sé í uppsiglingu … – en ég get samt ekki nógsamlega þakkað mér fyrir að hafa tekið þá ákvörðun fyrir sirka sjö árum að hafa ekki samskipti við Morgunblaðið, á meðan núverandi ritstjóri stjórnaði blaðinu. Og að hafa haldið mig við þá ákvörðun. Hvernig datt annars fólki í hug að það væri nóg að segja upp áskriftinni?) En aftur að Andra Snæ: af hverju í ósköpunum má maðurinn ekki nota hendurnar til að leggja áherslu á það sem kemur út úr munninum? Eiga ekki einmitt hendurnar og orðin að vinna saman?