6. maí 2016

Unknown-1

Nú er kominn fram nýr forsetaframbjóðandi, úr röðum sagnfræðinga, og hann hefur tekið þann pólinn í hæðina að hafa með sér hirðskáld. Það skáld hefur meira að segja gefið út bók, eða bækur, þar sem nafn forsetabústaðarins er að finna í titlinum. Ég hef rætt þetta aðeins (ef maður leyfir sér að kalla tölvupósta samræður) við kunningja mína úr rithöfundastétt. Og hvað kom út úr þeim samræðum? Nú var ég næstum búinn að lýsa því yfir að „sitt sýndist hverjum“, en hætti við á síðustu stundu; samræður okkar kunningjanna voru ekki svo litríkar að óhætt sé að lýsa þeim með því orðalagi, að „sitt sýndist hverjum“. En ekki meira um það. Í staðinn ætla ég að velta fyrir mér öðrum möguleika, og hann er sá að ég myndi koma að máli við (sem er ekki óheppilegt orðalag þegar um forsetaframboð er að ræða) Bæring Ólafsson, sem er einn af „íslensku“ forsetaframbjóðendunum. (Eða er hann ekki örugglega enn í framboði? Ég hef ekki tíma til að ganga úr skugga um það; ég þarf að hafa hraðan á, eins og Gottfried Benn orðaði það.) En hvers vegna Bæring Ólafsson? Hvers vegna að koma að máli við hann? Ég fékk nefnilega bækling frá Bæring Ólafssyni um daginn, inn um bréfalúguna. Fínn bæklingur, litprentaður, með myndum af Bæring og fjölskyldu hans. Líklega hefur bæklingurinn týnst innan um eitthvert annað dót á heimilinu – ég finn hann ekki núna – en það var ýmislegt í honum sem mér fannst ekkert algalið að kæmi frá forsetaframbjóðanda. Það sem mér aftur á móti dettur í hug varðandi Bæring er að hugsanlega gæti farið vel á því að ég gerðist hans „hirðskáld“. Þó ekki væri nema fyrir þá ástæðu að svo litlu munar að nafn hans sé anagram af mínu nafni – það þarf bara að taka út n-ið hjá honum. Svo höfum við sama föðurnafn, Ólafsson. Ég heyri strax fyrir mér ljóðið sem ég myndi yrkja fyrir lokaframboðsfundinn. Hvað varðar önnur framboð, önnur en Bærings og Guðna Th. og sitjandi forseta, þá er spurningin um hirðskáldið ef til vill ögn flóknari þegar kemur að Andra Snæ Magnasyni. Mér dettur ýmislegt í hug í því sambandi, en kýs að láta allt ósagt. Í bili.