Franska skáldsagan heldur áfram: mamma hringdi aftur frá Tenerife í dag. („Móðir hringdi frá Tenerife í dag.“) Nýjustu upplýsingar eru þær að það hefðu ekki beinlínis verið tjallar sem opnuðu gáttir Helvítis á hótelinu í gær; það voru Skotar. En eru ekki Skotar tjallar? Nei. Það eru Englendingar sem eru tjallar. En það voru samt læti í Skotunum; ég heyrði í þeim í gegnum símann í gær. Evrópukeppnin fór heldur betur vel af stað í dag. Auðvitað vonar maður alltaf að „ólíklegri“ þjóðin vinni leikinn – og keppnina – en markið á 89. mínútu var svo fallegt að allar væntingar aðrar en þær að fá falleg mörk gufuðu upp. Maður gufar upp sjálfur við að horfa á svona mark. Ég hélt ég hefði nýtt mína peninga illa með því að borga 6 þúsund og níu hundruð krónur í áskrift að „áhorfinu“, en ég er strax kominn út í gróða. Ég get ekki beðið eftir að fá að sjá Iniesta, hvenær sem það verður. (Ég sá hann á auglýsingaplakati í Barcelona um daginn.) Og íslenska landsliðið. Ég get bara almennt ekki beðið. Ég er að hugsa um að vera með óbeina lýsingu frá keppninni í Frakklandi. Enda er ég ekki staddur í Frakklandi; það eru bara systkini mín sem eru stödd þar (bróðir og systir). En „Mamma hringdi aftur í dag.“ (Franska skáldsagan heldur áfram.)