Ég hef verið að lesa í bók sem nefnist Vor unga stétt – Verzlunarskóli Íslands í 100 ár. Auðvitað ber mér að útskýra slíkt val á lestrarefni, en ég ætla ekki að gera það. Ég var reyndar sjálfur í þessum skóla (þess vegna á ég bókina), og lauk þaðan svokölluðu „verslunarprófi“, með frekar lágri einkunn, aðallega í bókfærslu og hagfræði. Ég lærði annars að vélrita í Verzlunarskólanum – það er að segja almennilega; það nám hófst í Hagaskóla – og að lesa ljóð eftir Þorstein frá Hamri. Svo lærði ég að skrifa verslunarbréf á íslensku og ensku. Ég mun alltaf búa að þeirri dýrmætu reynslu, að hafa lært að skrifa verslunarbréf; og núna í augnablikinu (þessa dagana) er ég óbeint að nýta mér þann lærdóm, verslunarbréfið, í bók sem ég er að skrifa. Annars er 100 ára saga V.Í. mjög svo áhugaverð bók, og vel unnin, með ansi ríkulegu myndefni. Mig langar til að vitna svolítið í hana – í gamni (það er alls ekki illa meint). Í bókinni er sérstakur dálkur sem nefnist „Ég valdi Verzló …“ (vegna þess osfrv.). Björgólfur Guðmundsson athafnamaður (sem var góður vinur, og skólabróðir, föður míns heitins), er einn af þeim sem var beðinn um að fylla út í þennan dálk. Hann útskýrir val sitt á Verzló meðal annars með eftirfarandi orðum: „… vegna þess að hugur minn stóð til viðskipta og atvinnureksturs, og hef ég verið aðili að stofnun og stjórnun ýmissa fyrirtækja.“ Um það bil þrjátíu árum síðar er sonur Björgólfs, Björgólfur Thor, fjárfestir, beðinn um að svara sömu spurningu; og það verður að segjast eins og er að svar hans er helvíti fínt. Hér er innan úr því: „… ég þekkti fullt af fólki sem hafði verið í Verzló, bæði ættingja og eldri systkini vina minna, og þau lofuðu skólann mjög mikið. Svo var hann einnig annálaður fyrir að vera með skemmtilegasta félagslífið, mesta djammið og sætustu stelpurnar og auðvitað hafði það mikið að segja. Í gegnum Verzló lærði ég eiginlega bara fyrir skyndiprófin.“ Þótt mín, „kaflahöfundar“, sé getið í þessari fínu bók, Vor unga stétt (það er vitnað í texta – agalegan texta – sem ég skrifaði í skólablaðið), þá var ég (því miður, verð ég að segja) ekki beðinn um að tjá mig um ástæður þess að ég valdi Verzló á sínum tíma. En ef ég man rétt, þá gerði ég það vegna þess að mér var illa við MR. Ég fann reyndar fljótlega eftir að ég hóf mitt „verzlunarnám“ að ég ætti ekki langa framtíð fyrir höndum í „faginu“. Ég entist þó í heil tvö ár, og náði verslunarprófinu, þvert á eigin væntingar – og þrátt fyrir að ég sofnaði í hagfræðiprófinu. Svo flutti ég mig yfir í MH. Og ég komst upp úr þeim skóla líka, þrátt fyrir að falla tvisvar á sama stærðfræðiprófinu – fékk einkunina E. Það hafðist þó í þriðju tilraun – þá fékk ég A – en bara vegna þess að Megas gaf mér svolítið kver til að styðjast við, Stærðfræðileg formúluljóð. (Heitir hún það ekki annars, litla bókin? Ég finn hana aldrei þegar á þarf að halda.)