Fyrsta uppáhaldsliðið í EM á mínu heimili var Wales, eftir að þeir unnu Slóvakíu á öðrum degi keppninnar. Reyndar vissi enginn annar á heimilinu af því að Wales var að spila, en samt: Wales var orðið uppáhaldsliðið. Síðan þá er Spánn dottinn úr keppninni, en Wales ennþá inni. Ég missti að vísu af leik Wales og Belgíu í gær; ég sá bara lokamínúturnar. En Ísland er líka uppáhaldslið. Og núna held ég með því. En líka Þjóðverjum og Wales. Mín óraunsæja spá er sú – því það hentar mér ekki að vera með raunsæja spá – að Wales og Ísland spili úrslitaleikinn 11. júlí í París. Ég ætla aftur á móti að leyfa mér að vera raunsær í spá minni fyrir þann leik: Wales vinnur Ísland 14 – 2. Ísland skorar átta sjálfsmörk í leiknum. Og Ísland verður að athlægi um allan heim, ekki síst í Wales. Í gær – svo ég snúi mér að öðru – var ég spurður að því hvað í raun og veru hefði gerst fyrir bjórdósina sem ég gleymdi í frystihólfinu. Ég hafði lýst því í einni færslunni (ég viðurkenni það) að dósin hefði sprungið þegar ég opnaði hana gegnfreðna. En auðvitað trúði ekki viðkomandi manneskja, sú sem spurði mig, þeirri lýsingu minni. Ég trúi henni ekki heldur, því ég hef enn ekki tekið dósina úr skápnum. Fólk er að rengja það sem ég segi hérna – líka ég.