Það er ekki bara Guðbergur Bergsson rithöfundur sem fer á veitingastaðinn í IKEA. Það getur verið að hann fari oftar þangað en ég, en ég fór samt þangað í dag, ásamt tveimur níu ára stúlkum. Þær fengu sér eitthvað, og safa með því; ég fékk mér eitthvað annað, og vatn með því. Hefði ég ekki verið á bíl, þá hefði ég fengið mér bjór; það fæst nefnilega bjór í IKEA (þótt ekki komi það fram í sögu Gyrðis Elíassonar, Infernó; þar er ekki sérstaklega talað um drykki, bara kjötbollur, kartöflur og týtuberjasultu). Tilgangur ferðarinnar í dag var að kaupa servíettur. (Munnþurrkur er ómögulegt orð; það er beinlínis misvísandi orð.) En hvers vegna er ég að minnast á IKEA? Ég veit það ekki, það bara gerðist. Enda er það jafnan aðferðin í þessu prógrammi: ég tala bara um það sem dettur ofan í mig að tala um í það og það skiptið, þegar ég á annað borð man eftir að sinna þessu. Sumt leyfi ég mér alls ekki að tala um; annað er þess eðlis að mér finnst ég eigi að leyfa öðru fólki að hafa það svið út af fyrir sig. „Ég segi bara frá ferðum mínum (og Guðbergs Bergssonar) í IKEA.“ Og fyrst ég minnist á IKEA og Guðberg Bergsson, þá er ég nokkuð viss um að Guðbergur væri fyrir löngu búinn að skrifa sögu sem gerðist í IKEA, væri Gyrðir ekki búinn að eigna sér það svið, ef svo má að orði komast. Saga Gyrðis er nefnilega þess eðlis (eða svo ágeng, sem er kannski nákvæmara orðalag) að hæpið er fyrir aðra rithöfunda að reyna að ætla sér eitthvað svipað, án þess að bíða af því skaða sem höfundur. En það er þó ekkert sem hamlar öðrum höfundum að fara í IKEA, eða á veitingastaðinn. Bara ekki skrifa um það sögu – það er búið að gera það. Núna er ég alveg viss um að Guðbergur (um leið og hann les þetta) er sestur niður til að skrifa sögu um reynslu sína af matsölunni í IKEA. Þannig virkar Guðbergur – þykist ég vita. Ég myndi ekki einu sinni leyfa mér að skrifa um bílastæðið fyrir framan IKEA-húsið. Enda er Gyrðir búinn að því, í sögunni sinni: Skugginn á planinu hafði dýpkað og það var orðið svalara. Við stigum inn í bílinn og ég ók hægt af stað. Ég ætlaði að skrúfa aftur frá útvarpinu en hætti við það. / „Þarna kem ég aldrei aftur,“ sagði hún og spennti á sig beltið með rykk. Heimsókn mín og stúlknanna í sænska vöruhúsið átti sér stað einhvers staðar á bilinu milli kl. 12 og 14 í dag – ég ætla að láta það verða lokapunktinn í þessari frásögn minni af IKEA-ferðinni. En hvað á ég þá að tala um annað? Fráfarandi forseta? Hreinsanirnar í Tyrklandi? Tilhugalíf Zenos Cosini í Trieste (sem ég er að lesa um, eða endurlesa, þessa stundina)? Það er sunnudagur, og vegna þess að það skín ekki sól, þá er eina ráðið í stöðunni að hlusta á Scott Walker. Og láta hann leiða sig burt frá stemmningunni í IKEA (jafn ágæt og hún er, fyrir sinn hatt) – og inn í síðdegið. (Ég ætla ekki að hafa myndskreytingu með textanum að þessu sinni; það er komið alveg nóg af upplýsingum til að vinna úr sjónrænt. Bara eitt örstutt post scriptum.) ps. Um daginn sagði ég frá því að þrír af meðlimum hljómsveitarinnar The Fall hefðu gefið út ævisögu sína. Það er ekki rétt; þeir eru að minnsta kosti fjórir. Simon Wolstencroft, trommuleikarinn sem tók við af Karl Burns (ég held ég fari örugglega rétt með að Simon hafi tekið við af Karl), hefur líka skrifað bók.