Það stendur til að fara á Arnarhól seinnipartinn, og horfa á leikinn þar. Það eru Ameríkanar í heimsókn, og þeir eru spenntir fyrir Arnarhóli. (Svo verður reyndar að koma í ljós hvort maður verði þar allan leikinn; það verður að spilast eftir því hvernig leikurinn spilast.) En ef Ameríkanarnir væru ekki, þá færi ég líklega til bróður míns í Hafnarfirði til að horfa á leikinn. Og hann mun eftir sem áður horfa á leikinn þar. Við höfum rætt það svolítið okkar í milli hvort úrslitin verði þau sömu í Hafnarfirði og í Reykjavík. Og við komumst að þeirri niðurstöðu að líklega væri öruggast að vera annað hvort á Akureyri eða í Vestmannaeyjum, því á þeim stöðum er líklegra að niðurstaða leiksins verði Íslendingum í vil. En ekki meira um það í bili. Nú hefur framsóknarkonan, nafni þarsíðasta forseta Íslands, tjáð sig opinberlega um næsta forseta okkar, Guðna Th. Henni líst ekkert á hann. En hún neitar að rökstyðja lítið álit sitt á honum. Þessa daga hefði ég haldið að fjölmiðlar hefðu úr nægu að moða (EM, Brexit, Boris og Donald, kirkjugrið osfrv.), og þess vegna finnst mér afar einkennilegt að þeir séu að segja frá því sem framsóknarkonan segir. Eða öllu heldur því sem hún segir ekki. Hún sagði það (held ég) á facebook, en fjölmiðlum finnst það ekki nóg; þeir vilja að það birtist víðar – þeir bjuggu til úr því fyrirsögn. Mér dettur í hug í þessu sambandi að ef Íslendingar vinna ekki Frakka í kvöld, þá ættu fjölmiðlar á Íslandi að láta vera að birta úrslitin. Segja frekar meiri fréttir af Vigdísi Hauksdóttur.