Það er ekki beinlínis hægt að segja að það hafi verið ævintýri á gönguför, sbr. leikritið, en eftirminnilegt var það: Þegar við yfirgáfum Arnarhól nokkrum mínútum áður en fyrri hálfleik lauk í gærkvöldi – það voru börn með í för, tvö þeirra amerísk; þau nenntu ekki að vera lengur meðal tuttugu þúsundanna; og við hin eiginlega ekki heldur – þá var búið að skora tvo mörk í leiknum; og þegar við gengum yfir Austurvöll var hrópað út úr The English Pub „Þrjú – núll!“, og síðan þegar við komum heim, þá var búið að bæta við einu marki enn: 4 – 0. Gönguferðin frá Arnarhóli upp á Suðurgötu var því tveggja marka ferð. Sem táknaði allhressilega að „ævintýrið“ væri búið. En svo unnu Íslendingar seinni hálfleikinn. Mín hugmynd er því sú að næst muni liðið einungis leika seinni hálfleikinn; að það láti eitthvert annað lið um þann fyrri. Frétt dagsins er aftur á móti sú að framsóknarkonan, sú sem hafði engin rök fyrir litlu áliti sínu á verðandi forseta, hún hefur ákveðið að hætta á þingi. Þetta eru bestu fréttir sem íslenskir fjölmiðlar hafa sagt okkur í langan tíma. Og ég ætla mér ekki að rökstyðja það. Það er eiginlega ekki hægt að rökstyðja neitt sem tengist ákvörðunum og yfirlýsingum framsóknarkonunnar. Það er ekki hægt að rökstyðja neitt sem frá framsóknarmönnum kemur. Og þar af leiðandi átti framsóknarkonan sjálf í basli með að rökstyðja yfirlýsingu sína um verðandi forseta. En núna er sólin komin aftur. Og ég er ánægður með íslenska fótboltalandsliðið. (Og það er þjóðhátíðardagur Bandaríkjamanna.)