Mér var sagt frá því um daginn („það var sagt mér“) að nýrra tíðinda mætti fljótlega vænta í bókaútgáfu á Íslandi. Og það var vitnað í facebook og tölvupósta – gott ef ekki líka í hljóðlátt skraf milli aðila í bransanum – því til staðfestingar. Einhverjar breytingar eru sem sagt á döfinni hjá forlögum og rithöfundum. Á mínu heimili er svoleiðis kallað „að gera breytingar“. („Ég geri breytingar; þú gerir breytingar; hann/hún gerir breytingar“, og svo framvegis. „Þau gera breytingar.“) Ég tel mig búa yfir nokkuð áreiðanlegum heimildum hvað þessi tíðindi varðar. Til dæmis var hjá mér rithöfundur áðan sem beinlínis rakti fyrir mér ákveðnar hrókeringar höfunda milli forlaga; og sá hinn sami hafði upplýsingar um ný forlög sem sagt er að séu um það bil að verða til. En vegna þess að sumar upplýsingarnar gætu komið illa við ákveðnar manneskjur sem óbeint „hanga utan á þeim (upplýsingunum)“ vil ég að svo stöddu máli ekki tjá mig um þetta frekar en ég hefi nú þegar gert. Ég tek þó fram að ekkert af þessu „slúðri“ snertir mig sjálfan sem höfund (ekki enn að minnsta kosti); það getur verið að eitthvað af því snerti mig sem manneskju eða tilfinningaveru (sem ég vissulega tel mig vera, þrátt fyrir að ákveðnir einstaklingar myndu aldrei taka undir það), en ekkert af þessu snertir mig sem höfund (enda er ég tilfinningalaus sem höfundur). Ég er strax farinn að velta fyrir mér myndefni fyrir þessa færslu, einkum vegna þess að orðið tilfinningar dúkkaði upp. Ég ætla þó aðeins að taka mér lengri frest til að ákveða það. En hvar var ég? Framsóknarflokkurinn vill ekki lengur kannast við eigin foringja. Nei, það var ekki það sem ég var að tala um. Ég var að tala um tilfinningar. Og myndefni sem hæfir tilfinningum. Ég ætlaði mér reyndar upphaflega að gera að umtalsefni bráðskemmtilega pistla Guðmundar Brynjólfssonar djákna og rithöfundar (sem hann birtir sem blogg, en líka á facebook; mér hefur verið sagt frá þeim, og meira að segja fengið nokkrar facebook-færslur sendar með tölvupósti); en nú finnst mér eins og ég sé búinn að velta svo feykilega þungum steinum í dag (með því að segja frá orðrómi um breytingar í bókabransanum, án þess þó að nokkuð konkret hafi komið í ljós), að ég ætla að geyma mér Guðmund Brynjólfsson sem umræðuefni að sinni. Ég hef aftur á móti tekið ákvörðun um myndbirtinguna – hún verður með frekar klassísku móti.