24. ágúst 2016

ÁN TITILS

 

Í kjörbúðinni hitti ég gamlan vin föður míns heitins. Og við spjöllum saman; við höfum ekki hist í einhver sjö eða átta ár. Sígarettupakki gægist upp úr skyrtuvasa hans. Það sem hann segir við mig áður en við kveðjumst, eftir svolítið spjall (þó ekki um föður minn) hlýtur að vera eitthvað sem margir hafa orðað áður – það hljómar þannig – en ég hafði samt aldrei heyrt það fyrr: „Maður er bara á einum stað í einu,“ segir hann.

 

Ég segi já við því. Við höfðum talað saman um rafeindir og taugaboð, bílategundir og líkamsheilsu, og að lokum um útsýni úr sumarbústöðum og þá fjarlægð sem að hans mati hafði verið svo óþörf á milli bústaðar hans, vinar pabba og konunnar hans, og pabba og mömmu; þau áttu bústað á sama stað á landinu, við sama vatn.

 

Svo kveðjumst við, og göngum í sitthvora áttina; hann inn í búðina, ég út úr henni. Fimm mínútum síðar, þegar ég nálgast heimili mitt í bílnum, finnst mér eins og að með orðinu maður hafi vinur pabba verið að tala um pabba, ekki okkur, eins og ég hélt í fyrstu. Og það tekur mig svolítinn tíma að ákveða hvað ég á að kalla þessa frásögn mína, hvort Á einum stað í einu sé eðlilegasti titillinn, eða Að deyja merkir meðal annars það að maður fer aldrei aftur í kjörbúðina.