Kafla á dag hefur borist mynd í tölvupósti. Myndefni. Ég geri ráð fyrir að myndin sé tekin í Kaupmannahöfn. Hún sýnir „framsóknarmann“ og hina glaðhlakkalegu Margréti Þórhildi danadrottningu (án sígarettu – en hún er kannski hætt). Jafnvel þótt Margrét virki svo glöð á myndinni að það hvarflar að manni að varla sé á færi mannlegrar veru að sýna meiri gleði en hún sýnir, þá er ég ekki frá því að „framsóknarmaðurinn“ sé öllu kátari en drottningin á því augnabliki sem myndin er tekin. En það er túlkunaratriði. Myndin á að minnsta kosti vel við á svona björtum sunnudegi á Íslandi. Það er annars spáð rigningu seinnipartinn eða í kvöld, hér á suðvesturhorninu. Í gær var sagt við mig: „Þannig að þú ætlar að kjósa Viðreisn?“ Þetta kom alveg flatt upp á mig. Ætlaði ég að kjósa Viðreisn? Hvar hafði sá sem spurði mig heyrt eitthvað um það? Ég ákvað að snúa vörn í sókn (með þeim fyrirvara að ég myndi draga úr sókninni frekar snögglega þegar samtalinu yndi fram – „yndi fram“, segir maður það?): „Já, ég var eitthvað að hugsa um það,“ sagði ég. „En fólkið í Viðreisn er sjálfstæðismenn,“ sagði viðmælandinn. „Nú, þá gengur það ekki,“ sagði ég, og bætti við: „En hvað er þá hægt að kjósa? Pírata?“ „Samfylkingin er í mestri þörf fyrir atkvæði í augnablikinu,“ sagði viðmælandinn, og útskýrði fyrir mér að hann hefði ætlað sér, sem félagshyggjumaður, að kjósa Vinstri-græna, en væri farinn að hallast að því að Samfylkingin hefði meiri þörf fyrir atkvæði hans en Vinstri-grænir. „En þá ertu að kjósa Össur Skarphéðinsson,“ sagði ég (og fannst ég aftur hafa snúið vörn í sókn). „Já, þá gengur það ekki,“ sagði viðmælandinn. Lengra varð samtalið ekki. Og við fórum báðir að hugsa um „Framsóknarflokkinn“, og þörf hans fyrir atkvæði frá landsmönnum. Við hugsuðum um Bósa Ljósár, að minnsta kosti ég. (Í ljós kemur að myndin frá Kaupmannhöfn vill ekki festast á vefsíðunni. Tæknin eitthvað að stríða mér. „I´ll have to look into this,“ eins og sagt er á ensku.)