Fjórir dagar liðnir og ég hef ekki bætt úr misheppnaðri birtingu minni á myndinni af fráfarandi forsætisráðherra og Danadrottningu. Rúma hálfa viku hefur sú myndbirting legið í loftinu en ekki losnað úr því ástandi og orðið að veruleika. Sá sem hefur ekki tíma til að sinna heimasíðunni sinni, hann hlýtur að vera að gera eitthvað annað. Og það stendur heima: ég er að gera svolítið annað. Það er varla að ég hafi tíma til að pikka inn þessi orð hér, því þetta „annað“ sem ég er upptekinn við hefur einmitt með orð að gera (en spurning hvort orð sé á því gerandi). (Ég hef aldrei áður notað þetta orðalag: að orð sé á því gerandi. Einhvern tíma er allt fyrst.) Í kvöld á ég að lesa upp í Norðurkjallara Menntaskólans við Hamrahlíð, ásamt öðrum höfundum sem stunduðu nám við þann skóla. Því var stungið að höfundunum að þeir læsu eitthvað sem tengdist veru þeirra í skólanum, en vegna þess að ég man ekki í fljótu bragði eftir að hafa skrifað eitthvað sérstaklega um MH, þá datt mér í hug að taka einn léttan Guðberg á þetta, og lesa eitthvað sem ég hefði skrifað um Verzlunarskóla Íslands, þar sem ég var við nám áður en ég hóf nám við Menntaskólann við Hamrahlíð. En ég finn ekki heldur neitt sem ég hef skrifað um Verzlunarskóladvöl mína. Nema þá auðvitað bullið sem ég birti í skólablaðinu, Viljanum (þvílíkt nafn á skólablaði!). Ég ætla ekki að fara að rifja upp þau skrif. Er þá niðurstaðan sú að ég hef ekkert skrifað um reynslu mína í þessum skólum? Sé svarið já, þá er ástæðan líklega sú að ég var aldrei almennilega með hugann við þessa skóla á meðan ég var þar. Ég var annars staðar. Hér í Kafla á dag hef ég nýlega (minnir mig) rifjað upp einkunnablað mitt frá VÍ; og ef ég mínusa frá góðar einkunnir í tungumálunum, þá held ég að aðrar einkunnir mínar úr báðum skólunum, VÍ og MH, séu fullkomlega áþreifanleg sönnun þess að ég var fjarverandi í námi mínu á meðan ég stundaði það. Ég hef aftur á móti skrifað eitthvað um veru mína og reynslu í Hagaskóla (sem er gagnfræðaskóli, eins og það hét þá). Sá skóli dúkkar upp í nokkrum sögum, aðallega smásögum (minnir mig). En hvað á ég þá að lesa upp fyrir nemendur MH í kvöld? Ég er að hugsa um að lesa tvo stutta texta um Botnskálann í Hvalfirði, og nota tækifærið til að kynna smásagnaúrvalið sem kom út í vor, Dulnefnin. (Það verður að kynna þá bók betur; ég hef á tilfinningunni að ekki eitt einasta eintak hafi selst.) Botnskálinn er umfjöllunarefni sem hentar hverri stund og hverjum stað, jafnvel Norðurkjallara. Því mig grunar að ekki svo margir áheyrendur í kjallaranum í kvöld muni hafa hugmynd um hvað Botnskálinn er. Eða var. Hvað hann er – hann er nefnilega ennþá til, að minnsta kosti fýsískt séð, kannski ekki beint „andlega“. Þegar Guðbergur var beðinn um að tala um Halldór Laxness í sjónvarpinu, stuttu eftir að Halldór lést, þá talaði Guðbergur um Jón úr Vör. Ég mun segja frá Botnskálanum þegar ég á að tala um Menntaskólann við Hamrahlíð. (Myndefni dagsins í dag er ljósmynd sem ég tók árið 2011 af bakhlið þess sem einu sinni var Botnskálinn, og er það í einhverjum skilningi enn. Myndin af Danadrottningu og fráfarandi forsætisráðherra verður að bíða betri tíma. Enda allt í lagi með það: ég held að sú mynd hljóti að vera sígild, rétt eins og myndin af fyrrverandi forseta Íslands og Ratzinger páfa. ps. Aftur klikkar myndbirtingin. Myndin af bakhlið Botnskálans vill ekki festast á síðunni. Ég verð að biðja um tæknilega aðstoð. Getur einhver veitt mér tæknilega aðstoð? Sigurjón?)