Að kalla „forsætisráðherra“ feitilíus eru mistök vegna þess að „forsætisráðherra“ er meira fauti en feitur. Munið „Fiskistofu í heild sinni til Akureyrar“. Ég á að minnsta kosti mjög erfitt með að gleyma því máli; ég hef reynt en án árangurs. En hefði Arnar Páll Hauksson kallað „forsætisráðherra“ fauta, hefði hann þá verið neyddur til að biðjast afsökunar? Ég fletti orðinu fauti upp, og þar stendur þetta: 1 heimskingi 2 sá sem reiðist fljótt og illa, bráðlyndur maður. Að fautast er útskýrt svona: 1 asnast, bjálfast 2 hegða sér reiðilega, rjúka upp í reiði. Ég held, ef maður tekur mark á orðabókinni, að það hefði verið meiri ástæða til að fara fram á afsökunarbeiðni hefði Arnar Páll kallað „forsætisráðherra“ fauta – með öðrum orðum bráðlyndan heimskingja. En „Fiskistofa í heild sinni til Akureyrar“ var samt afar heimskuleg fyrirskipun, og asnaleg og bjálfaleg. Hvort ákvörðunin hafi verið tekin í einhverri reiði er ekki gott að segja, en ég er ennþá á því að „forsætisráðherra“ sé fauti frekar en feitur. Og biðst ekki afsökunar á því, enda virtist „forsætisráðherra“ (þá sjávarútvegsráðherra) ekki vera neitt sérstaklega sorrí vegna yfirgangs síns gagnvart starfsfólki Fiskistofu, þótt hann hafi neyðst til að draga ákvörðun sína til baka. En aðeins meira um orðið fauti. Ég fletti því upp í gömlu samheitaorðabókinni: flón, fól, funi, æðikollur, sbr. ofsamaður. Einmitt. Hinn hægláti „forsætisráðherra“ er ofsamaður. Myndskreyting dagsins er annars af gömlum framsóknarmanni (og Ratzinger páfa).