Auglýsing: Þessa viku verða Dulnefnin (sögur 1996 – 2014) bók vikunnar á Rás 1. Það prógramm hefst í Víðsjá í dag, og lýkur næsta sunnudag. Ég fór í spjall til Helga Snæs Sigurðssonar í morgun (við töluðum um ferhyrninga og miðaldra karlmenn, meðal annars); svo skilst mér að Guðrún Lára Pétursdóttir, sem skrifaði eftirmála bókarinnar, og Árni Matthíasson, eigi að spjalla um Dulnefnin á sunnudaginn. Messan í Hafnarfjarðarkirkju í gær var sem sagt upptakturinn að þessu. (Núna var ég búinn að láta mér detta í hug að birta hér stystu söguna í Dulnefnunum, en mundi þá eftir því að ég birti tvö eigin ljóð í gær, og fannst að með birtingu sögunnar (Botnskálinn) yrðu birtingar á eigin efni fulltíðar hér á síðunni, þannig að ég ætla að hafa smá músík í staðinn. Þessa dagana er ég að reyna að gíra mig upp í að senda einhvers konar gestafærslu á bloggsíðuna Ráðlagður jazzskammtur, sem nýlega hefur verið ræst í netheimum (https://radlagdurjazzskammtur.wordpress.com) – ef ég má gera svoleiðis, það er að segja – og var eitthvað að hugsa um að láta þá færslu fjalla um snillinginn Gil Evans. En svo var ég hálfpartinn fallinn frá því; ég fór að hugsa um að velja svolítið annað. En til að láta ekki Gil Evans liggja alveg óbættan hjá garði, þá hefi ég látið mér detta í hug að spila hann hér í dag, og láta hann verða upptakt að gestafærslunni á Ráðlögðum jazzskammti (ef ég má á annað borð koma með gestafærslu – ég endurtek það), jafnvel þótt í gestafærslunni verði ekkert minnst á Gil Evans. Ég hefi valið hina óviðjafnanlegu útgáfu af lagi Willies Dixon, Spoonful; þetta er að finna á plötunni The Individualism of Gil Evans, aukalag á geisladisksútgáfunni.)