Gamla konan sem sat fyrir framan mig á tónleikunum í Hörpu í gær klappaði svo mikið fyrir rússneska píanóleikaranum í lok Rakhmanínov-konsertsins að ég óttaðist í raun og veru að hún myndi ekki hafa það af. Ég var sjálfur hættur að klappa – gat einfaldlega ekki meir – þegar hún var ekki nema hálfnuð með sitt klapp. Kannski er ég ekki sanngjarn að segja að þessi kona hafi verið gömul, en hún var að minnsta kosti tuttugu árum eldri en ég. Fyrir utan gleðina með tónleikana (sérstaklega Ravel-ballettinn eftir hlé) gladdist ég mjög yfir að ekkert gerðist fyrir konuna; ég las nefnilega fyrir nokkrum vikum um eitthvert atvik í Eldborgarsalnum þegar þurfti að kalla til lækni; en þarna sluppum við fyrir horn: það gerðist ekkert svoleiðis í gærkvöldi. „Eldri“ konan klappaði ekki síður fyrir Dafnis og Klóa eftir hlé, og nýja stjórnandanum, Tortelier; en það var ekki eins ákaft klapp og fyrir rússneska píanóleikaranum, Lugansky – kannski var af henni dregið. En þetta var gott kvöld. Ég elska Ravel ekki minna núna en ég gerði.