Tveir mánuðir í aðfangadag jóla. Þegar ég kíkti í nýja (eða nýja og gamla) bók Sjónar (Sigurjóns B.), CoDex 1962, í bókabúð Máls og menningar í gær, þá sá ég, mér til hrellingar, að hann notar yfirstrikanir í textanum. Í bókinni sem ég er að skrifa nota ég nefnilega yfirstrikanir. Þannig að á næsta ári kemur út önnur skáldsaga þar sem yfirstrikanir eru notaðar – mér finnst rétt að nefna þetta hér, svo lesendur „hinnar“ skáldsögunnar, sem kemur út á næsta ári (þeir lesendur hennar sem lesa þetta líka), hugsi ekki sem svo: „Já, hann hefur líka ákveðið að nota yfirstrikanir í sinni bók, hm …“ Auðvitað ætti ég að taka út þessar yfirstrikanir í minni bók, en í fljótu bragði sé ég ekki hvernig það er hægt. Skáldsaga veitir manni ekki meira frelsi en það: það sem einu sinni er komið í hana verður ekki tekið út úr henni aftur. Ég hef þó alltént látið vita af þessu. Og kannski mun mér auðnast að strika yfir þessar yfirstrikanir mínar, þannig að ekki verði um neinar yfirstrikanir að ræða. Það er vandlifað. Og ekki nema tveir mánuðir í aðfangadag jóla. Til að gleyma þessu öllu í bili ætla ég að bregða á það ráð að hafa mynd: