Í gær las móðir mín, Soffía Sigurjónsdóttir, upp smásögu eftir sjálfa sig í Seltjarnarneskirkju. Kirkjan býður stundum höfundum að lesa upp eitthvað – það er gott að vita til þess að í kirkjum landsins sé ekki bara lesið upp úr biblíunni. Mamma hefur ekki skrifað mikið um ævina, en fyrir stuttu datt henni í hug að setja á blað mjög skemmtilega – en líka svolítið krassandi – æskuminningu; og til að gera langa sögu (sem reyndar er ekki svo löng) aðeins styttri, þá frétti presturinn af því að mamma lumaði á sögu eftir sjálfa sig, og hann bauð henni að lesa hana upp í guðshúsinu. Það tók mömmu svolitla stund að ákveða sig hvort hún ætti að þiggja boðið, en hún gerði það að lokum (með hvatningu frá mér, því mér fannst sagan hennar góð); og hún spurði mig, eldri son sinn, hvort ég vildi ekki lesa upp með henni; hana langaði til að ég læsi ákveðna smásögu eftir mig sem gerist (eða á að gerast) í íbúð sem við bjuggum í við Hagamelinn á áttunda áratugnum. Ég tók vel í að lesa, en svo kom í ljós að ég komst ekki á þeim tíma sem lesturinn átti að fara fram, og það varð úr að Sigurjón bróðir tók að sér lesturinn. Hann ætlaði þó ekki að lesa smásöguna mína, og heldur ekki upp úr bókinni sem hann gaf út sjálfur á síðasta ári (Bókinni um vefinn) – nei, hann ákvað að lesa upp úr Hinni nýju sýn eftir Vestur-Íslendinginn Harald C. Geirsson, bók sem Smekkleysa gaf út árið 1990, með trúarlegum ljóðum (og reyndar veraldlegum í bland); honum fannst eins og tími væri kominn til að rödd Haraldar C. Geirssonar heyrðist í kirkjum landsins (þótt ekki yrði það rödd hans sjálfs, Haraldar, sem heyrðist; hann er ekki lengur meðal vor – eða Kanadabúa, réttara sagt). Það er annars skrítið til þess að hugsa að þessi ágæta bók sem rataði á fjörur Smekkleysu fyrir 26 árum skuli aldrei fyrr hafa verið kynnt meðal íslenskra kirkjugesta. En það gerðist sem sagt í gær. Sigurjón valdi nokkur kvæði úr bókinni, og las nokkur aðfararorð (sem ég, einn af útgefendum bókarinnar, hripaði niður í skyndi) – þetta gekk víst nokkuð vel í áheyrendur; það var spurt hvort bókin væri fáanleg í búðum, sem hún er því miður ekki: hún er uppseld fyrir löngu. Smekkleysa dreifði bókinni í nokkrar búðir, mest á höfuðborgarsvæðinu en einnig úti á landi, og ef ég man rétt, þá fóru flest eintökin í Kirkjuhúsið í Kirkjuhvoli. Hvað varð um Kirkjuhúsið veit ég ekki – ég veit ekki heldur hvað varð um eintök bókarinnar. Ég veit samt um eitt eintak til sölu í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi; mér er sagt að það kosti 2500 krónur. En hér er kynningarbrotið um hinn vestur-íslenska Harald C., og tvö þeirra kvæða sem lesin voru upp í kirkjunni, auk eins annars, Trúvillunnar, sem okkur útgefendunum fannst á sínum tíma eitt af sterkari kvæðum bókarinnar.
HARALDUR C. GEIRSSON – Hin nýja sýn
Harla lítið er vitað um ævi Haraldar C. Geirssonar, annað en það að hann var af íslenskum ættum, bjó alla sína tíð í Toronto, Kanada, var ógiftur, og starfaði lengst af sem bókhaldari hjá vöruflutningafyrirtæki. Það fyrirtæki virðist ekki lengur vera til, og ekki hefur tekist að finna skyldfólk Haraldar, hvorki í Kanada né á Íslandi. Hann lést fyrir um það bil tíu árum. Þegar ljóðabók Haraldar, Hin nýja sýn, kom út á Íslandi árið 1990, fékk útgefandi bókarinnar, Smekkleysa, einhverjar frekari upplýsingar sendar frá höfundi, en þær upplýsingar hafa týnst, og ekkert virðist vera að finna um Harald á veraldarvefnum, utan fréttatilkynningu í íslensku dagblaði í tilefni af útgáfu bókarinnar. Haraldur sendi handritið að Hinni nýju sýn til Smekkleysu einu eða tveimur árum áður en ákveðið var að ritið út; útgefandi hafði þá hug á að bjóða honum til landsins af því tilefni, en ekkert varð af þeim áformum, hver sem ástæðan fyrir því kann að hafa verið, áhugaleysi Haraldar eða þröng fjárhagsstaða útgáfunnar á þeim tíma. Einhver tvö eða þrjú nýrri ljóð bárust frá Haraldi eftir að bókin kom út, en þau ljóð voru meira í ætt við tækifærisljóð, ort í tilefni giftingar og/eða afmælis. Það er óhætt að segja að Haraldur hafi haft nokkuð gott vald á íslenskri tungu, miðað við að hann ólst ekki upp við að tala málið, og kom aldrei til Íslands svo vitað sé. Eitt kvæðanna í Hinni nýju sýn lýsir flugferðalagi, en í ljósi þess að það hefst á línunum „Aldregi á ævi minni / upp í flugvél komið hef“, má ætla að Haraldur aldrei látið verða af því að ferðast til lands forfeðra sinna. Hvað varðar hinn trúarlega þátt Hinnar nýju sýnar, sem vissulega er fyrirferðarmestur í bókinni, þá er ekki hægt að efast um sannfæringu höfundar, sem virðist einlæg og hrein, þótt sitthvað í biblíuskilningi hans hafi ef til vill skolast svolítið til. Nokkur vandlætingartónn er í sumum kvæðanna, en það má segja að hann bæti þann tón upp með þeim létta takti sem sleginn er í fyrrnefndu kvæði um flugferðalögin, þar sem hann í lokalínunum gerir grín að sjálfum sér fyrir að vera dagdraumamaður, í fyllstu merkingu þess orðs: „En oft mig dreymir daga langa / dásemd himins meðan sef.“
TIL FLUGSINS
Aldregi á ævi minni
upp í flugvél komið hef.
En oft mig dreymir daga langa
dásemd himins meðan sef.
Hugvit mannsins hefur komið
honum ofar skýjahnjúk.
Á milli landa fljótt hann ferðast
með farangur og eigin búk.
Og vélar þessar þykja fínar
og þjónusta er víða góð.
Færð er á bökkum fæða og drykkur
og ferðin er örugg, snögg og hljóð.
Hægt er að versla varning margan
við vægri borgun og frjálsan skatt.
Hlutir þeir sem hægt er að eignast
hafa mæður og frændur glatt.
Og sæki að þorsti þarf ei annað
en þrýsta á lítinn rauðan hnapp,
og birtist þá stúlka með blíðum orðum
og býður þér drykki, hvílíkt happ!
Aldregi á ævi minni
upp í flugvél komið hef.
En oft mig dreymir daga langa
dásemd himins meðan sef.
SUNNUDAGUR
Til kirkju er farið
við klukknahljóm
og klukkustund varið
við helgan óm.
TRÚVILLAN
Tóm eru orðin sem trúvillan mælir
og tárin sem hún fellir eru rykug og þurr.
Frá orði Drottins hún fólkið fælir
og fölsk hún hljómar sem hundsins urr.
Hún birtist fólki í mörgum myndum
og miskunn enga hún sýnir þeim
sem lifa og hrærast í sætum syndum
og sigla án Guðs um þennan heim.
Og þeir sem orð hennar boða og bera
með bros á vör og ylfingsglott
illsku mannsins upp munu skera
og ávallt bera því slæma vott.