John Lydon er væntanlegur til landsins, í þeim tilgangi að veita pönksafni í Bankastræti 0 blessun sína, og lesa upp ljóð eða texta á Airwords-dagskrá Iceland Airwaves. Ég á eina mjög skemmtilega minningu um John Lydon. Þegar Sykurmolarnir voru á tónleikaferðalagi með New Order og Public Image Ltd í Bandaríkjunum sumarið 1989, spiluðum við í Buffalo, New York. John Lydon átti eitthvert skyldfólk þar, sem hann hitti eftir tónleikana (þetta fólk er í minningunni afar venjulegt, ekki neitt í líkingu við John; eiginlega alveg eins og maður ímyndar sér að fólk frá Buffalo líti út); og einhvern veginn atvikaðist það að ég fór með John og þessu fólki upp á hótelherbergið hans. Ég man ekki mikið eftir þeirri heimsókn, var líklega búinn að drekka eitthvað meira en tvö eða þrjú glös í búningsherberginu (eins og John Lydon líka, geri ég ráð fyrir); en það sem festi þetta í minninu var að allt í einu, í miðju spjalli við skyldfólkið, ældi John yfir rúmið sem hann sat í – það var enginn formáli að því, eins og sjaldnast er þegar fólk ælir; hann afsakaði sig ekki einu sinni áður en spýjan kom út úr honum – og ég (sem eftir á að hyggja var þá ekki búinn að drekka eins mikið og ég ýjaði að hér áðan) hljóp til og náði í handklæði eða pappír inn á baðherbergi til að þurrka upp gubbið af rúmábreiðu Johns. Minningin nær ekki lengra en þetta. Ég man ekki hvort ég hjálpaði sjálfur til við að hreinsa upp æluna, eða hver viðbrögð hinna gestanna voru; ég man bara að ég náði í handklæði eða pappír. Mér finnst þó eins og að þetta atvik hefði ekki brotið upp heimsóknina eða breytt taktinum á nokkurn hátt, en það er kannski bara ímyndun. Ég man ekki einu sinni eftir neinni lykt. En talandi um lykt:
Drive to the forest in a Japanese car
The smell of rubber on country tar
Hindsight does me no good
Standing naked in this back of the woods
The cassette played poptones
I can’t forget the impression you made
You left a hole in the back of my head
I don’t like hiding in this foliage and peat
It’s wet and I’m losing my body heat
The cassette played poptones
This bleeding heart
Looking for bodies
Nearly injured my pride
Praise picnicking in the British countryside
Poptones
(John Lydon: Poptones)
ps. á forsíðu Fréttablaðsins í dag er nánast gefið í skyn að Óttarr Proppé (sem ég sé fyrir mér að verði viðstaddur opnun pönksafnsins í Núllinu) ætli að liðka til fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn verði í nýrri ríkisstjórn. Ég mun ekki bara rífa hár mitt og skegg (væri það til staðar) ef það gerist; ég mun éta hár Óttarrs (sem vissulega er til staðar). Og æla því. (En líklega er ég með óþarfar áhyggjur: Óttarr er of góður gaur til að láta sér detta eitthvað svona í hug.)