Næsti kafli hefst á því að hópurinn sem þýddi ljóðaúrval Ewu Lipsku (ef manni leyfist að beygja nafn hennar) á íslensku var tilnefndur til þýðendaverðlaunanna í gær. Neyðarútgangur fékk með öðrum orðum fimm gular rósir (það eru myndir af þeim í einhverjum fjölmiðlum dagsins í dag). Hinn íslenski Pólverji Olga Holownia, okkar góði vinur, stjórnaði þessu öllu saman, og gerði sitt besta (sitt albesta) til að láta svo líta út fyrir að við hin, Áslaug Agnarsdóttir, Óskar Árni Óskarsson, Magnús Sigurðsson og ég, kynnum pólsku, sem við gerum í raun ekki, nema auðvitað Áslaug að einhverju leyti, í gegnum sína rússnesku. Samstarfið við Olgu, og Aðalstein Ásberg, hinn stórhuga útgefanda, var glimrandi fínt og skemmtilegt. Eins og ljóð Ewu. Ég ætla sjálfur að halda upp á þetta með því að fara upp í sveit. Í sumarhúsið. Vetraráform um sumarferðalag, svo maður vitni í G.eneral E.lectric. Eða myndi það vera öfugt: sumaráform um vetrarferðalag? Hinir þýðendurnir sem voru tilnefndir til verðlaunanna í gær í Borgarbókasafninu eru Ófeigur Sigurðsson, Sölvi Björn Sigurðsson, Sigurður Pálsson, Hallgrímur Helgason og Árni Óskarsson (sá sem ósjaldan er ruglað saman við Óskar Árna Óskarsson – og öfugt). Fólk verður sjálft að finna út hvaða verk þessir þýðendur þýddu; ég hef ekki tíma til að telja það upp.