Eftir á (að minnsta kosti) er myndáhorf gærkvöldsins einhver mest viðeigandi leiðin til að koma út úr jólunum, og ekki síður var valið á myndinni í harmóníu við veðrið sem herjað hefur gegn gluggunum hér á sjöundu hæð í Tungltúni síðustu daga (og gerir enn). Ég horfði á Tórínóhross Béla Tarr – aftur. Sú mynd gerist á sex dögum (sem er kannski mesta kómíkin við hana, því hvíldardaginn vantar); og fyrstu fjóra dagana hvín vindurinn án afláts, ekki bara fyrir utan húsræksni feðginanna, bóndans og dótturinnar, heldur líka innan í óþéttum híbýlunum, og auðvitað líka í hesthúsinu, þar sem viljalaus og lífsþreyttur jálkurinn bíður eftir að draga vagn þeirra í burtu – sem hann fæst síðan ekki til að gera. Þetta er sannarlega áhrifamikil mynd; ein af þeim myndum sem maður spyr sig stöðugt í gegnum áhorfið hvort sé innantómt drasl eða eintóm snilld. Drasl er hún ekki – ég veit ekki af hverju ég læt mér detta í hug slíkt orð. Kannski vegna þess að myndin fær mann stundum til þess að æpa upp yfir sig (hið innra) og spyrja sig hvers vegna í ósköpunum maður láti draga sig í gegnum 146 mínútur hennar. En af hverju datt mér í hug að nefna Tórínóhrossið „viðeigandi leið“ til að fara út út jólunum? (Nú hugsar eflaust einhver: En jólin eru ekki búin; þau eru búin 6. janúar. Í mínum augum – og huga – eru jólin búin kl. 21.45, 26. desember, um það leyti sem jólaboði móður minnar lýkur. Ég hefði því með réttu átt að setja Tórínóhrossið í afspilunartækið kl. 21. 57 í fyrradag, þegar við komum heim úr boðinu hennar mömmu.) En af hverju „viðeigandi leið“? Mér finnst hún eiga mjög vel við á þessum tímapunkti, vegna þess að neysla matar og drykkjar hjá þeim feðginum er á fullkomnu undirstöðustigi (andstætt því sem svo margir kvarta yfir í tengslum við jólin; að allt of mikill matur og drykkur íþyngi þeim yfir hátíðina). Þessi þáttur Tórínóhrossins, neysla matar og drykkjar, er ef til vill mikilvægasta „spurning“ myndarinnar: hringrásin sem persónurnar ferðast eftir. Á kvöldin borða þau fegðin soðna, sjóðheita kartöflu, sem þau strá salti yfir – að vísu borða þau alltaf mjög lítið af kartöflunni; mestur hluti hennar fer í ruslið – og á morgnana fá þau sér staup af palinku (sem er ávaxtabrandí – ég fékk svoleiðis flösku í fimmtugsafmælisgjöf frá Stefáni Jónssyni – mjög góður drykkur); faðirinn fær sér alltaf tvö staup, og fimmta daginn fær hann sér aukasopa beint úr flöskunni. Þetta er þeirra daglega matar- og drykkjaræði. Í einni af eftirminnilegustu senum myndarinnar kemur nágranni í heimsókn (annars ekki mikið um heimsóknir eða annað fólk í myndinni) til að kaupa af þeim flösku af palinku. Þetta er ekki í eina skiptið í myndum Béla Tarr þar sem fólk leggur á sig langa leið til að ná sér í ávaxtabrandí; en í þessari senu finnst mér kristallast það sem einna helst heillar mig í myndum leikstjórans: það hvernig hlutir eru færðir til, og hversu mikil alúð er lögð í að sýna þá færslu. Þetta á vitaskuld ekki síður við um fólk og dýr. Ég stenst ekki þá freistingu að láta senuna fylgja (fyrst hún er tiltæk á youtube) – það er á 1.30 til 1.47 sem dóttirin kemur með brandíflöskuna, og setur hana á borðhluta föðurins, sem aftur rennir henni í átt að nágrannanum, sem síðan kemur henni lengra í burtu frá föðurnum, eins og til að eigna sér hana:
Einræða nágrannans er ekki síður einkennandi element í myndum Béla Tarr. Þótt stundum bjóði hann upp á yndislega kómísk samtöl, ekki síst í myndinni Satanstangó, þá eru einræður persónanna algengari – heimspekilegar yfirlýsingar sem oftar en ekki virka fremur „sljóbeittar“, enda oft mikið af palinku í blóði þeirra sem þær flytja. Það er líka skemmtilegt, í þessu broti með föðurnum og nágrannanum, hvernig sá sem hlustar (eða hlustar ekki) bandar einræðunni frá sér sem einskisverðu bulli. En hvernig samskipti persóna í myndum Béla Tarr eru dregin upp er kannski ekki svo ólíkt því hvernig áðurnefnd færsla hlutanna er sýnd. Mín upplifun er sú að í þessu sé „merking“ myndanna falin; það er þetta sem heillar mig mest við verk Béla Tarr, og fær mig til að horfa á þau aftur. Auðvitað finnst manni miður að hann ætli sér ekki að gera fleiri myndir, en um leið er það aðdáunarvert – ef rétt er (kannski nennir hann einfaldlega ekki að búa til fleiri myndir) – að honum finnist hann ekki þurfa að hafa þær fleiri; að hann sé búinn að segja það sem hann ætlaði sér að segja. Eflaust hafði ég í huga að slútta þessari eftirjólafærslu með einhvers konar útleggingu á því síðastnefnda, að listamaður líti svo á að hann hafi ekki neitt fleira að segja; en það verður að bíða betri tíma – hún hræðir mig alltaf, þessi tilhugsun.