5. desember 2016

NÁMSKEIÐ Í LISSABON

til Dags Sigurðarsonar

Vegna skorts á lýsingarorðum fór einn barþjónninn á Brasileira á námskeið í tungu sinni. Eftir þrjár vikur þegar hann sneri aftur til starfa hafði allt tekið breytingum; eldri kona sem setið hafði við sama borð frá því elstu menn mundu, og lesið í þykkri bók, var dáin, og í stað andlitsmynda á veggjum var kominn spegill svo djúpur að verð hafði hækkað á drykkjum. Þjónninn gat ekki fundið eitt einasta orð til að lýsa því sem hann sá! Eitt andartak fannst honum sem námskeiðið hefði verið sóun á tíma og peningum en með hjálp starfsfélaga sinna sættist hann á að nú væri lýsinga ekki þörf; námi hans væri lokið og breytingunum myndi hann venjast áður en vissi.

(úr Ansjósum, 1991)