Veður leyfði. En bara rétt svo. Stuttu eftir að ungverska flugfélagið tók á loft í hádeginu í gær, eftir klukkutíma seinkun, var allt flug stöðvað. Eða svo er mér sagt. Ég var með þeim síðustu sem komust frá landinu, að minnsta kosti fyrri part gærdagsins. Ég komst líka á hótelið í Vilníus, og labbaði síðan yfir í Ráðhúsið, þar sem borgarstjórinn bauð upp á léttar veitingar. Þegar ég beið eftir að gamli maðurinn í fatahengi Ráðhússins tæki af mér yfirhöfnina, sneri sér að mér maður á aldur við mig og spurði hvaða tungumál ég talaði. „Ensku,“ sagði ég. (Ég var nefnilega að tala ensku þegar maðurinn heyrði til mín.) Þá vitnaði hann í Paul McCartney, og lofaði mér því að við (þá væntanlega við hinir enskumælandi) myndum eiga í vandræðum með Brexit. Ég náði ekki almennilega að svara honum, því gamli maðurinn í fatahenginu tók við yfirhöfninni minni og lét mig hafa númer, ef ég vildi fá yfirhöfnina aftur. Og á meðan þau viðskipti fóru fram lét Paul McCartney sig hverfa. Ég held ég muni muna þetta númer það sem eftir er ævinnar, því hefði ég ekki fengið það, þá hefði ég glatað yfirhöfninni minni. Og ég er ekki kominn hingað til Vilníus til að lenda í því. Númerið var 75.