Af hverju tengir maður jafn vel og maður gerir við tónlist eins og „mublumúsík“ Eriks Satie?
Vegna þess að hún miðlar engri sérstakri tilfinningu. Hún er bara þarna, eins og stóllinn í stofunni okkar (sem nú á að fara að endurbólstra), eða konsúlsborðið sem undanfarið hefur verið á stöðugri hreyfingu um íbúðina, vegna þess að enginn hefur pláss fyrir það – ekki einu sinni íbúðin hefur pláss fyrir það. Endurtekningin í „mublumúsíkinni“ er líka jafn átakalítil og hvítu fletirnir á skrifstofuveggnum, sem saman mynda einn samfelldan flöt. Og það er svo fínt – það hentar manni svo vel. En af hverju hefur maður líka gaman (og gagn) af lögum eins og Where are we now? eftir David Bowie, eða Where´s the Girl? með Scott Walker?
Vegna þess að þau gera það gagnstæða við tónlist Saties. Herra E. (sem ekki ber að rugla við Mister E) kíkti í heimsókn í gær. Hann var ekki á leiðinni í bankann, eins og hann er stundum þegar hann lítur inn (því við erum auðvitað að tala um fjármálahverfið) – kannski sagðist hann bara ekki hafa verið á leiðinni í bankann, því hver vill láta vita af því að hann fari í bankann sama dag og gjaldeyrishöftum er aflétt? Það verður að gera ráð fyrir að fólk hafi sjálfsvirðingu. En af hverju er ég að rifja upp heimsóknir gærdagsins? Nú man ég það: herra E. hefur einmitt talað um að hann sé ekki mikið fyrir söngvarana tvo sem ég nefndi hérna áðan, því þeir gefi upp allt of miklar tilfinningar í söng sínum. Ég er honum alveg sammála í því – það eru ekki margir sem komast upp með þann glæp að gefa of mikið uppi, eða almennt gefa eitthvað uppi – en þessir tveir eru saklausir af glæpnum, þrátt fyrir að hafa framið hann, bara alveg eins og Erik Satie hreyfir við manni með því að hreyfa ekki við neinu. (Ef einhver skildi þetta, þá má sá hinn sami gjarnan láta mig vita hvað ég meinti.) Að vísu var herra E. ekkert að tala um þetta í gær – í gær töluðum við um annað, meðal annars alla kringumHrunsmennina sem sækja mjög stíft í að búa í húsinu við hliðina á húsinu hans. Í miðju Hruni, eða líklega rétt fyrir Hrun, sátu þessir menn í heitum potti í garðinum og hrópuðu hver framan í annan (svo það heyrðist yfir í næstu garða): „Cash is King!“ (Og endurtóku það, geri ég ráð fyrir.) Svo ræddum við ýmislegt fleira, meðal annars um bíómyndir (mér fannst ég verða að segja honum að ég er búinn að sjá Toni Erdmann tvisvar í bíóinu, á meðan hann hefur bara séð hana einu sinni), og ætli við höfum ekki endað spjallið á því að rifja upp hvaða bækur við keyptum á bókamarkaðnum. Hann náði sér í Forystufé; ég keypti bók um Borgarfjörðinn, og aðra eftir Sigmund Freud.