Ljóð dagsins í dag, laugardag, á þessum síendurteknu Dögum ljóðsins, er aldrei þessu vant einmitt ljóð. Eða byrjun á ljóði. Áður en ég setti myndina eftir Ensor í gær hafði ég ætlað mér að velja nokkrar línur úr þýðingu Jóns Óskars á ljóði Apollinaires, Zone (sem Jón kallar Útgarða), en þá fann ég hvergi bókina (ekkert skipulag á bókum heimilisins); en í dag, þegar ég skimaði betur yfir skápinn í stofunni blasti bókin við mér, Undir Parísarhimni, þýðingasafn Jóns Óskars (annað af tveimur). Og þegar ég fletti upp Útgörðum, þá sá ég strax að mér myndi ekki nægja að setja hér einungis þær tvær eða þrjár línur sem ég hafði ætlað mér, heldur pikka inn fyrstu erindi ljóðsins, því þetta er svo skemmtilega gert hjá Jóni – eða það finnst mér. Að vísu koma nokkrar einkennilegar línur þegar á líður þýðinguna (þetta er mjög langt ljóð), og stundum lætur Jón rímið leiða sig út í svolitla vitleysu. En hér eru fyrstu erindin – ég er sérstaklega hrifinn af línunum um bifreiðarnar, Píus páfa og prósann í blöðunum:
Loks ertu þreyttur á þessum gamla heimi
Smali Eiffelturn brúahjörðin jarmar á morgunsveimi
Þú hefur nógu lengi lifað við gríska og rómverska siði
Jafnvel bifreiðarnar hérna eru með afgömlu sniði
Trúin ein er alveg ný hún er ný trú lífs og sálar
einföld er hún líka einsog flughafnarskálar
Í Evrópu er ekki ýkja gamalt að vera kristinn maður
Píus páfi tíundi er þar mestur nútímamaður
Og þú sem fyrir gluggaaugum glúpnar megnar eigi
að ganga inn í kirkju til að skrifta á þessum degi
Þú lest áætlanir auglýsingar skrár sem syngja við raust
Það er ljóðlist þessa morguns og í prósa eru blöðin traust
Það eru tuttuguogfimmsentíma útgáfurnar fullar af lögregluþáttum
og myndum af helstu stórmennum og greinum úr öllum áttum
…
… osfrv.