27. mars 2017

north-korea-defense_19884920192_o.width-720

Þegar myndir birtast í fjölmiðlum af „krúttinu“ Kim Jong-un og glaðhlakkalegri hjörð hans af herforingjum, eða hvaða nafnbót þeir hafa, hinir orðumprýddu herramenn sem standa að baki honum, þá eru hinir síbrosandi norðurkóresku kammerherrar alltaf með minnisbækur og penna uppi við, að punkta eitthvað niður hjá sér, á meðan Kim Jong-un brosir sínu breiðasta framan í myndavélina (eða öllu heldur framhjá myndavélinni, í áttina þangað sem enginn hefur horft áður, nema þá hugsanlega faðir hans og afi). Óneitanlega spyr maður sjálfan sig hvað þeir séu að punkta niður í minnisbækurnar, hinir glaðbeittu. Ég er í augnablikinu að lesa smásagnasafnið eftir dulnefnið Bandi (Eldfluguna), The Accusation; bókina sem smyglað var út úr Norður-Kóreu. Og þess vegna dettur mér í hug að það sem stöðugt er verið að skrá í norðurkóreskar minnisbækur, í návist Kims hins unga, séu hugmyndir að nýjum smásögum sem ætlað er að mynda sanngjarnt mótvægi við þær sögur sem nú hafa birst (utan Norður-Kóreu) um norðurkóreskan raunveruleika. Af lífsgleðinni sem skín út úr andlitum þeirra sem halda á minnisbókunum má ætla að þetta séu frekar skemmtilegar hugmyndir sem þeir eru að skrá hjá sér. Og það verður engin ástæða til að birta þær undir dulnefni.