Svo mikið af fínum bókum hefur hlaðist upp á borðinu hjá mér að undanförnu að ég er að kafna. Ég gæti ælt, eins og Jódínus Álfberg yfir öllum palísandernum sem þau hjónin höfðu komið sér upp. „It makes me puke,“ eins og segir í þýðingu Magnúsar Magnússonar. Skáldsagan Mannsævi eftir Robert Seethaler, sem var að koma út hjá Bjarti, situr mjög vel í mér; virkilega fín saga um ævi manns í fjallaþorpi í Ölpunum á síðustu öld. Ég var í fyrstu eitthvað hræddur um að hún yrði of „manneskjuleg“, eins og það er stundum nefnt, en hún slapp alveg við það. (Það er ekkert mannlegt við hana – djók.) Svo er það Birtan yfir ánni, nýtt safn ljóðaþýðinga eftir Gyrði Elíasson. Svo djúpur brunnur fínnar póesíu að maður læknast alveg af ógleðinni sem fylgir of stórum skammti af nýjum bókum. Frábærar þýðingar á Trakl, svo ég taki bara út eitt skáldið, en það sem er í mestu uppáhaldi í augnablikinu eru tvö ljóð ítalska skáldsins Patriziu Cavalli. Ég þekkti hana ekki áður. En nú þekki ég hana, þökk sé þessu safni. Frá Áslaugu Agnarsdóttur fékk ég skáldsögu Sergejs Dovlatov, Konu frá öðru landi. Ansi fín saga, og skemmtileg, og frábærlega læsileg þýðing. Um rússneska innflytjendur í Queens, New York. Maríja, útlenda konan, er komin í hið ameríska „frelsi“, en saknar „ófrelsisins“ og langar aftur heim, en slík ákvörðun er flókin: „Förum yfir staðreyndir málsins. Maríja Tatarovítsj nokkur yfirgefur ættjörðina. Síðan, sjáið til, biður Maríja Tatarovítsj um að fá að snúa aftur heim. Maður fær á tilfinninguna að ættjörðin sé ákveðin stærð sem hægt sé að skipta út eftir hentugleikum. Ef mig langar þá fer ég. Ef mér snýst hugur þá kem ég aftur. Eins og við séum stödd í matvöruverslun eða hugsanlega á markaði. Þetta er í raun, þér fyrirgefið, andstyggilegt tilfelli landráðs. Þér verðið sem sagt að bæta fyrir brot yðar. Og aðeins að því loknu, félagi Tatarovítsj, verður ákveðið hvort yður verður hleypt aftur heim. Eða ekki. En jafnvel þá mun slík ákvörðun krefjast botnlausrar góðmennsku. Og meira að segja sósíalísk mannúð hefur sín takmörk.“ (bls. 132) Fleiri bækur? Jú. Ég er með tvær ævisögur Diane Arbus, hálfnaður með þá fyrri. Og er að hugsa um að panta af fornbókavefnum abebooks.co.uk aðra bók eftir Dovlatov. En myndefni (fyrst ég er á annað borð að tala um neyslu)? Ég horfði á mjög svo áhugaverða mynd eftir Terence Davies, Of Time and the City, eins konar óð um fæðingarborg hans, Liverpool. Myndin er byggð á gömlu myndefni og kvótum í bókmenntir og tónlist; á vissan hátt alveg svakalega tilgerðarleg mynd, en samt óskaplega sjarmerandi – og gaman að höfundi tækist að sneiða hjá Bítlunum (fyrir utan að spila brot úr Hippy Hippy Shake!) en taka Bruckner og Mahler fram yfir Ringo og félaga. Svo sá ég í gær mynd Godards, Le Mépris, með Brigitte Bardot og hinum óviðjafnanlega Michel Piccoli (og reyndar Jack Palance og Fritz Lang!), bíómynd sem er byggð á skáldsögu Albertos Moravia, Fyrirlitningu. Mæli eindregið með henni. Á yfirborðinu um rithöfundinn sem selur sig. Bardot leikur nánast meira með rassinum en andlitinu (og nú stenst ég ekki að rifja upp hið feminíska innlegg enska rithöfundarins Laurie Lee, „rassinn er andlit konunnar“ – samt mjög skrítið að þau orð hafi komið úr þeirri átt, en svo var mér sagt). Meira myndefni? Ég sá mynd Ólafs Rögnvaldssonar, Línudans. Gott hjá Kastljósi að fylgja þeirri fínu mynd eftir með viðtali við forstjóra Landsnets. „Týnda skýrslan“ minnti mjög harkalega á raðlygar forsætisráðherra vors.