Nú líður mér svolítið eins og ég sé að skrifa í dagbók (moi – nýbúinn að lýsa því yfir að þessi bloggsíða sé ekki dagbók), en svo bar við að íbúar fjármálahverfisins í 105 lögðu leið sína í nýopnaða Mathöll á Hlemmi í gær. Við fórum í okkar fínasta púss, enda Menningarnótt í borginni (eini dagur ársins sem gengur undir nafninu Nótt), og við gengum sem leið lá niður á Hlemm. (Gott ef ég tók ekki svarta innkaupapokann minn með, ef svo færi að við keyptum eitthvað í Mathöllinni – ég hafði séð fyrir mér fullan poka af fersku grænmeti, og kannski nýveiddan hnakka af þorski líka.) Nú, svo er ekki meira með það: við gengum inn í Mathöllina, og höfðum ekki verið þar nema hálfa mínútu eða svo, þá hittum við fólk sem við þekktum. Eftir að hafa spjallað við fólkið (meðal annars um Mathöllina) hittum við fleira fólk sem við þekktum, og eftir að hafa spjallað við það fólk (ekki þó um Mathöllina – í þetta sinn var umræðuefnið bækur og bókaútgáfa), hélt áfram að dúkka upp fólk sem við þekktum – það varð eiginlega ekkert lát á þessu; við höfðum ekki nokkurt næði til að virða fyrir okkur innviði Mathallarinnar. Ég nefndi áðan að við hefðum rætt um Mathöllina við fólkið sem við hittum fyrst eftir að við komum inn; en líklega er það ekki alveg rétt, því við höfðum í raun ekki myndað okkur neina skoðun á því sem fyrir augu bar (auk þess sem við höfðum hvorki haft tíma né næði til að virða það fyrir okkur). Það vildi síðan svo til að síðustu manneskjurnar sem við töluðum við í þessari heimsókn okkar í Mathöllina voru á leið út úr Höllinni; og einhvern veginn atvikaðist það svo að við urðum þeim samferða út um dyrnar, og vorum allt í einu komin niður að Snorrabraut þegar við gerðum okkur grein fyrir að Mathöllin væri að baki, að þeirri heimsókn væri lokið. Svo héldum við áfram niður Laugaveginn, þar sem við sinntum einu litlu erindi, áður en við snerum aftur, í þetta sinn norður eftir Snorrabrautinni, og framhjá Lögreglustöðinni og Kínverska sendiráðinu. (Gaman að geta þess að við sáum einmitt lögreglustjórann í Reykjavík inni í Mathöllinni; hún var þar í fylgd annarra lögreglumanna, væntanlega að ganga úr skugga um að allt gengi vel fyrir sig. Og rétt að geta þess líka – fyrst ég nefndi Kínverska sendiráðið – að við sáum enga Kínamenn í Mathöllinni.) En eftir á að hyggja – og þrátt fyrir að við næðum ekki að horfa mikið í kringum okkur í Mathöllinni – vaknaði sú spurning í hugum okkar hvort Mathöllin væri rétta nafnið yfir þá starfsemi sem nú hafði verið ýtt úr vör í gamla strætóhúsinu við Hlemm. Svarti innkaupapokinn minn hefði ekki komið að miklum notum þar inni, jafnvel þótt við hefðum haft allan tímann í heiminum til að skoða okkur um og versla. Jú, þarna voru hinir og þessir veitingastaðir, og ísbúð og vínbar (og salernisaðstaða fyrir túristana), en ég varð ekki var við að matur væri seldur, nema þá í formi eldaðra rétta og smurbrauðs. Ekkert grænmeti. Enginn nýveiddur þorskhnakki. Bara kælt hvítvín, danskt smurbrauð af fínni gerðinni, og bjór úr glansandi nýjum dælum. Það vantaði bara þægilega tónlist, til dæmis „djass af þeirri gerðinni sem ljúft er að hafa á fóninum yfir kvöldmatnum“. Ég veit að ég var rétt í þessu að segja frá því að við hefðum gengið niður Snorrabrautina, og þaðan framhjá Lögreglustöðinni og Kínverska sendiráðinu, en það er ekki rétt: ég sagði það bara til að geta komið hér að lögreglustjóranum í Reykjavík (sem þó er alveg satt og rétt að við sáum í Mathöllinni) og Kínverska sendiráðinu (ég er með Kínverska sendiráðið á heilanum, það játast hér með). Sannleikurinn er sá að við gengum frá Laugaveginum upp í Skipholt, því í Skipholti er Bónusverslun, og þar er einmitt selt grænmeti (að vísu ekki nýveiddur þorskhnakki). En talandi um Bónus og grænmetið þar, þá hitti ég manneskju á föstudaginn sem sagði mér svolítið um grænmetið í Bónusbúðunum. Þessi manneskja þekkir aðra manneskju, og síðarnefnda manneskjan þekkir Englending sem vinnur við að selja grænmeti til annarra landa. Englendingurinn sagði síðarnefndu manneskjunni frá því að hann seldi íslenskum svínaframleiðanda grænmeti (fóður handa svínunum); þetta fyrirtæki væri með bleikt svín í lógóinu sínu … Það kom í ljós að hinn íslenski viðskiptavinur Englendingsins var Bónus, og að grænmetið sem Bónus keypti af honum var (í skilningi Englendingsins) dýrafóður. Þannig að við, íbúarnir í fjármálahverfinu, fórum í Bónus á Menningarnótt (eftir að hafa verið í Mathöllinni), til að kaupa grænmeti ætlað svínum, vegna þess að í Mathöllinni var ekki selt grænmeti, eins og við höfðum látið okkur detta í hug að væri gert, áður en við fórum þangað. En varð okkur meint af svínafóðrinu? Nei. Næstum sólarhringur er liðinn frá því við neyttum þess, og ekkert bendir til annars en að grænmetið í Bónus nýtist í manneldi líka. (Og hvað segir það okkur – um okkur sjálf?) En hefði ég ekki þegar verið búinn að kaupa mér bjór í Vínbúðinni fyrr um daginn (til að hafa á Menningarnótt – fyrir gesti, það er að segja), þá hefði ég getað fengið svoleiðis í Mathöllinni – þar flaut bjórinn út um allt; þar var meira að segja lykt af humlum í loftinu; ég fann það á meðan ég talaði við allt fólkið sem við hittum.